Enski boltinn

Gummi Ben: Hef oft áhyggjur af geðheilsu þeirra sem styðja Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það getur tekið á taugarnar að halda með Arsenal.
Það getur tekið á taugarnar að halda með Arsenal. getty/Shaun Botterill

Guðmundur Benediktsson segist ekki vera viss á hvaða leið Arsenal sé, réttri eða rangri. Hann var gestur Sportsins í dag þar sem hann ræddi meðal annars um Skytturnar.

Arsenal mætir Benfica í seinni leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar klukkan 17:55 í kvöld. Fyrri leikurinn fór 1-1 og Arsenal er því í góðri stöðu með útivallarmark.

Gummi Ben segir erfitt að leggja mat á lið Arsenal sem er í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Hann vorkennir aðallega stuðningsmönnum félagsins.

„Ég þekki þónokkuð marga sem styðja Arsenal og ég hef oft áhyggjur af geðheilsu þeirra. Aðrar eins sveiflur hef ég ekki séð hjá vinum mínum. Það fer eftir því hvaða dagur er,“ sagði Gummi.

„Staða Arsenal í deildinni segir að liðið er ekki á réttum stað miðað við það hvar það á að vera.“

Mikel Arteta hefur stýrt Arsenal í rúmt ár en þetta er hans fyrsta aðalþjálfarastarf á ferlinum.

„Þetta tekur bara tíma. Þú verður bara góður þjálfari með því að fá reynslu. Maður spyr sig líka hvort Arsenal sé rétta félagið fyrir þjálfara að fá reynslu eins og Arteta. Hann á klárlega margt ólært eins og allir ungir stjórar,“ sagði Gummi sem á erfitt með að svara því hvort Skytturnar séu á réttri leið.

„Ég veit það ekki. Sama hvaða leið Arsenal er á, þá á Arsenal alltaf að vera að berjast í topp fjórum. Arsenal er þannig félag.“

Leikur Arsenal og Benfica hefst klukkan 17:55 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.