Innlent

Rektor MH: „Auð­vitað er manni brugðið að fá svona tölvu­póst“

Atli Ísleifsson skrifar
Steinn Jóhannsson er rektor Menntaskólans við Hamrahlíð.
Steinn Jóhannsson er rektor Menntaskólans við Hamrahlíð.

„Auðvitað er manni brugðið að sjá svona tölvupóst,“ segir Steinn Jóhannsson, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð um sprengjuhótunina sem send var á skólann í nótt.

Lögregla var með mikinn viðbúnað við skólann í morgun vegna málsins, en nú hefur verið greint frá því að sambærilegar hótanir hafi verið sendar á þrjár stofnanir til viðbótar í nótt og gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana. Lögreglan telur sig vita hver stendur að baki þessum hótunum.

Steinn segir að hótunin hafi borist á netfang skólans. „Tölvupósturinn var á ensku og þar var sagt að það væri sprengja í skólanum sem myndi springa í dag. Við vöknum greinilega snemma í MH, því ég fæ póstinn frá skrifstofunni rétt fyrir sjö, er svo sestur við mitt skrifborð um 7:20.

Við vorum þrír starfsmenn í húsi svo við þurfum ekkert að rýma skólann. Við lokum skólanum strax og á meðan verið er að loka skólanum þá er haft samband við lögreglu sem er mætt um tíu mínútum síðar. Þeir voru bara komnir á staðinn um hálf átta. Þetta gekk mjög vel og lán að við skyldum geta brugðist við áður en einhver var kominn í bygginguna.“

Þekkir ekki til sendandans

Steinn segist ekki þekkja til þess einstaklings sem sendi hótunina. „Ég hef aldrei séð þetta nafn áður sem kom fyrir í tölvupóstinum.“

Hann segir að auðvitað er manni brugðið að sjá tölvupóst sem þennan. „Maður tekur þetta alvarlega. Ég tel að við brugðust hárrétt við, það er ákveðin viðbragðsáætlun í gildi þegar svona kemur upp sem framhaldsskólar fylgja.“

Kennsla hefst á ný í skólanum 12:55 og segist Steinn gera ráð fyrir að nemendur mæti af fullum krafti í skólann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×