Fótbolti

Haaland þakkaði Mbappé fyrir ókeypis hvatningu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erling Haaland var valinn maður leiksins þegar Borussia Dortmund vann Sevilla, 2-3, í gær.
Erling Haaland var valinn maður leiksins þegar Borussia Dortmund vann Sevilla, 2-3, í gær. getty/Alexandre Simoes

Erling Haaland segir að frammistaða Kylians Mbappé gegn Barcelona hafi hvatt sig til dáða gegn Sevilla í Meistaradeild Evrópu í gær.

Haaland skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 2-3 sigri Borussia Dortmund á Sevilla í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Daginn áður skoraði Mbappé þrennu í 1-4 sigri Paris Saint-Germain gegn Barcelona á Nývangi og Haaland segir að það hafi hvatt sig áfram.

„Það er gott að skora mörk. Ég elska Meistaradeildina og þegar ég sá Mbappé skora þrennu í gær var það frí hvatning fyrir mig, svo ég þakka honum fyrir,“ sagði Haaland eftir leikinn í Andalúsíu í gær.

Klippa: Sevilla 2-3 Dortmund

Það er óhætt að segja að Haaland elski Meistaradeildina en hann hefur skorað átján mörk í aðeins þrettán leikjum í keppninni. Hann hefur nú skorað fleiri Meistaradeildarmörk en kempur á borð við Zinedine Zidane, Ronaldo, David Villa, Carlos Tévez og Falcao.

Rætt hefur verið um að kynslóðaskipti hafi orðið í evrópskum fótbolta í vikunni, að Mbappé og Haaland hafi tekið við kyndlinum af Lionel Messi og Cristiano Ronaldo. Möguleiki er á að hvorugur þeirra komist í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn síðan 2005.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×