Erlent

Yfir tuttugu látnir í for­dæma­lausu vetrar­veðri í Banda­ríkjunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Karla Perez og Esperanza Gonzalez hlýja sér yfir grillinu á heimili sínu í Texas sem er án rafmagns vegna kulda og snjóa.
Karla Perez og Esperanza Gonzalez hlýja sér yfir grillinu á heimili sínu í Texas sem er án rafmagns vegna kulda og snjóa. Getty/Go Nakamura

Fordæmalaust vetrarveður gengur nú yfir suður- og miðhluta Bandaríkjanna. Kuldamet hafa verið slegin, milljónir fólks eru án rafmagns og að minnsta kosti 21 hefur látist vegna veðursins.

Í gær voru flestir án rafmagns í Texas eða meira en fjórar milljónir heimila og fyrirtækja. Hitastigið fór niður fyrir frostmark en húsnæði í ríkinu, sem er í suðurhluta Bandaríkjanna, er ekki endilega byggt til þess að halda hita enda loftslagið almennt hlýtt.

Þá voru 250 þúsund manns í Appalachia-fjöllunum án rafmagns og fjórar milljónir íbúa í Mexíkó misstu einnig út rafmagnið. Í norðvesturhluta Oregon olli síðan frostregn rafmagnsleysi hjá 250 þúsund manns.

Í Chicago féll skólastarf niður í gær vegna mikils fannfergis þar sem jafnfallinn snjór í borginni náði 46 sentimetrum.

Í Norður-Karólínu létust þrír í hvirfilbyl og fjögurra manna fjölskylda lést í bruna í Houston sem kviknaði út frá arin í húsi þeirra. Þau höfðu kveikt upp í arninum til að halda á sér hita. Fólk hefur einnig dáið í Louisiana, Kentucky og Missouri, meðal annars í bílslysum.

Veðurviðvaranir vegna kulda, vinds og ofankomu hafa verið í gildi allt frá Kanada og niður til Mexíkó. Sé litið veðurspár Bandarísku veðurstofunnar virðist betra veður ekki í kortunum í dag allavega; áfram er til að mynda spáð frosti í miðríkjunum og jafnvel suðurríkjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×