Erlent

Tölvuþrjótar Kim reyndu að stela gögnum um bóluefni

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu. EPA/KCNA

Tölvuþrjótar á vegum Norður-Kóreu hafa reynt að stela upplýsingum um framleiðslu bóluefna og þar á meðal uppskriftinni að bóluefni Pfizer. Þetta kom fram á fundi forsvarsmanna leyniþjónustu Suður-Kóreu með þingmönnum í nótt.

Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni sögðu þeir að tölvuþrjótarnir hefðu meðal annars reynt að brjóta sér leið inn á vefþjóna lyfjaframleiðenda í Suður-Kóreu og öðlast þannig upplýsingar um framleiðslu bóluefna og meðferðir gegn Covid-19.

Ekki liggur fyrir hvort ætlunarverk tölvuþrjótanna heppnaðist.

Í nóvember í fyrra gaf Microsoft út að tölvuþrjótar frá Rússlandi og Norður-Kóreu hefðu gert árásir á fjölda lyfjafyrirtækja og reynt að koma höndum yfir upplýsingar um bóluefni.

Sjá einnig: Saka Rússa og Kóreumenn um að reyna að stela gögnum um bóluefni

Reuters fréttaveitan segir sérfræðinga hafa sakað Norður-Kóreu um árásir á fjölda lyfjaframleiðenda í fyrra. Þar á meðal eru Johnson & Johnson, Novavax Inc og AstraZeneca.

Árásum á lyfjafyrirtæki og heilbrigðisstofnanir hefur farið fjölgandi í faraldri nýju kórónuveirunnar. Að þeim árásum koma tölvuþrjótar á vegum ríkja í leit að nýjustu upplýsingum og tækni varðandi faraldurinn.

Norður-Kórea hefur þó lengi beitt hópum tölvuþrjóta í þeim tilgangi að koma höndum yfir peninga í trássi við viðskiptaþvinganir gegn landinu. Sérfræðingar sem Reuters ræddi við segja líklegt að Norður-Kóreumenn hafi ætlað sér að selja upplýsingarnar frekar en að nota þær til framleiðslu eigin bóluefnis.


Tengdar fréttir

Kim heldur þróun kjarnorkuvopna áfram

Yfirvöld einræðisríkisins Norður-Kóreu héldu þróun kjarnorkuvopna og eldflauga til að bera þau vopn, áfram í fyrra. Það var gert þrátt fyrir alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn einræðisríkinu vegna þessara þróunarverkefna.

Kim, systir Kim, segir herforingja Suður-Kóreu heimska

Kim Yo Jong, systir Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, segir herforingja í Suður-Kóreu vera vitleysinga og aðhlátursefni. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem birt var af ríkismiðli Norður-Kóreu í dag en Kim er yfir samskiptum einræðisríkisins við nágranna sína í suðri.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.