Erlent

Bóluefnið frá Pfizer fækkar einkennavaldandi smitum um 94 prósent

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ísraelskur heilbrigðisstarfsmaður fær bóluefnið frá Pfizer.
Ísraelskur heilbrigðisstarfsmaður fær bóluefnið frá Pfizer. epa/Abir Sultan

Ef marka má rannsóknir ísrelskra heilbrigðisyfirvalda fækkar bóluefnið frá Pfizer einkennavaldandi smitum af völdum Covid-19 um 94 prósent. Niðurstöðurnar byggja á upplýsingum um 1,2 milljónir einstaklinga en helmingurinn var bólusettur.

Þeir 600 þúsund sem höfðu verið bólusettir höfðu fengið báða skammta þegar niðurstöðurnar voru teknar saman. Bólusetning fækkaði alvarlegum veikindum af völdum Covid-19 um 92 prósent.

Rannsóknin hefur ekki verið ritrýnd en niðurstöðurnar eru í takt við niðurstöður Pfizer, sem segja bóluefnið veita 95 prósent vörn gegn Covid-19. 

Vert er að geta þess að lyfjarannsókn Pfizer var stöðluð en ísraelska rannsóknin ekki. Með öðrum orðum, þátttakendur voru ekki valdir sérstaklega. Þannig kann það að hafa áhrif á niðurstöðurnar að þeir sem velja að láta bólusetja sig kunna einnig að vera duglegri við að sinna persónulegum sóttvörnum.

Um 43 prósent íbúa Ísrael hafa verið bólusettir, þar af hafa 27 prósent fengið báða skammta.

CNN greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×