Erlent

Einn stærsti dagur mót­mælanna í Mjanmar þrátt fyrir hótanir um hand­tökur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Stuðningsmenn mótmælenda í Mjanmar ganga í gegn um miðbæ Tókíó.
Stuðningsmenn mótmælenda í Mjanmar ganga í gegn um miðbæ Tókíó. Getty/Takashi Aoyama

Tugir þúsunda tóku þátt í fjöldamótmælum í Mjanmar, níunda daginn í röð, í nótt og í morgun. Í gær skrifaði herforinginn Min Aung Hlaing undir tilskipun sem takmarkar frelsi og réttarstöðu almennra borgara, auk þess sem löggæsluyfirvöldum var skipað að handtaka þekkta stjórnarandstæðinga tafarlaust.

Verkfræðinemar marseruðu í gegn um miðborg Yangon, stærstu borgar landsins, klæddir hvítum fötum og haldandi á skiltum þar sem krafist var að Aung San Suu Kyi, lýðræðislega kjörnum leiðtoga landsins, yrði sleppt úr haldi. Suu Kyi hefur verið í haldi herforingjastjórnarinnar frá 1. febrúar þegar herinn framdi valdarán.

Mótmælin eru meðal þeirra stærstu sem sést hafa í landinu undanfarna áratugi. Það er óhætt að segja að mótmælin í dag hafi verið mikið sjónarspil en í Yangon var heilum flota af rútum keyrt um göturnar og flautum þeirra flautað í mótmælaskini.

Mótmælendur keyrðu í gegn um höfuðborgina Naypyitaw á mótorhjólum og bílum og í bænum Dawei spiluðu tónlistarmenn á trommur. Í Waimaw héldu mótmælendur uppi fánum og sungu byltingarsöngva.

Valdaránið og mótmælin hafa vakið athygli alls heimsins en Tókíóbúar gengu kröfugöngu í dag til stuðnings mótmælendum í Mjanmar. Margir héldu á myndum af Suu Kyi og segja skipuleggjendur göngunnar að um sé að ræða stærstu og fjölmennustu kröfugöngu í sögu Japan.

Meira en fjögur þúsund manns tóku þátt í göngunni og kyrjuðu mótmælendur „hjálpið okkur að bjarga Mjanmar“ og „stöðvum glæpi gegn mannkyni.“ Þetta eru ekki fyrstu mótmælin til stuðnings mótmælendum í Mjanmar frá valaráninu en nokkrar kröfugöngur og mótmæli hafa verið haldin í Japan síðan þá. Sérstaklega hafa það verið mjanmarskir íbúar í Japan.


Tengdar fréttir

Þekktir stjórnar­and­stæðingar verða hand­teknir

Herforingjastjórn Mjamar felldi í dag lög úr gildi sem banna löggæsluyfirvöldum að handtaka grunaða og framkvæma leit á einkaeign án þess að fá til þess heimild frá dómstólum. Þá fyrirskipaði stjórnin að þekktir stjórnarandstæðingar verði handteknir.

Her­foringjarnir beittir efna­hags­þvingunum

Joe Biden forseti Bandaríkjanna hefur undirritað tilskipun þess efnis að leiðtogar herforingjastjórnarinnar í Mjanmar sem tóku völdin í landinu á dögunum verði beittir efnahagsþvingunum af hálfu Bandaríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×