Innlent

Býst ekki við blaða­manna­fundi eftir fundinn með Pfizer

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að íslenskir vísindamenn muni funda með Pfizer í dag um mögulega fjórða fasa rannsókn lyfjafyrirtækisins hér á landi á bóluefni þess gegn Covid-19.

Hún kveðst ekki eiga von á því að boðað verði til blaðamannafundar í kvöld í kjölfar fundarins með lyfjafyrirtækinu.

Þetta kom fram í viðtali við Katrínu í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Ýmsar sögusagnir hafa verið á kreiki undanfarna daga um að samningur við Pfizer um rannsóknina sé í höfn. Því séu mörg hundruð þúsund skammtar af bóluefni á leiðinni til landsins.

Þá hefur einnig verið orðrómur um að eitt af skilyrðum Pfizer fyrir rannsókninni sé að hér verði landamærin opnuð.

Katrín sagði að opnun landamæranna hefði ekki verið rædd ennþá í þessu samtali en lagði áherslu á að það hefð ekki ennþá komið til tals.

„En það er þannig að eftir því sem bólusetningum vindur fram þá munum við sjá tilslakanir hér á Íslandi. Þær verða alltaf gerðar með hagsmuni almennings að leiðarljósi, þannig verður það bara áfram,“ sagði Katrín.

Hún sagði ekkert annað að segja um málið en það sem hefur nú þegar komið fram. Aðspurð hvort íslensku vísindamennirnir hefðu umboð frá henni til að ganga frá samningum sagði hún:

„Við fylgjumst bara grannt með en það er ekkert meira sem hefur komið út úr þessu en sem komið hefur fram. En ég veit það að það er mikið… þetta er orðið verst geymda leyndarmál Íslandssögunnar getum við sagt en ég get auðvitað ekkert sagt til um það hvað mun koma út úr þessu nákvæmlega.“

Hlusta má á viðtalið við hana í heild sinni í spilaranum hér ofar í fréttinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×