Fótbolti

Sagðist hafa óvart tekið inn lyf konu sinnar en var dæmdur í árs bann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bann Andrés Onana hefur þegar tekið gildi.
Bann Andrés Onana hefur þegar tekið gildi. getty/Soccrates

André Onana, markvörður Ajax og kamerúnska landsliðsins, hefur verið dæmdur í tólf mánaða bann frá fótbolta eftir að hafa fallið á lyfjaprófi.

Í lyfjaprófi sem var tekið 30. október á síðasta ári fannst lyfið Furosemide í þvagi Onanas.

Sjálfur segir hann að ástæðan fyrir því sé að hann hafi óvart tekið inn lyfið Lasimac sem konan hans tók.

Þrátt fyrir að ljóst hafi verið að Onana hafi ekki verið að reyna að svindla dæmdi UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, hann í tólf leikja bann frá félags- og landsliði.

Gamli markvörðurinn Edwin van der Saar, sem er framkvæmdastjóri hjá Ajax, sagði að félagið fordæmdi notkun ólöglegra lyfja en hann fyndi til með Onana.

„Þetta er skelfilegt bakslag fyrir hann og félagið. Hann er topp markvörður sem hefur sannað gildi sitt fyrir Ajax undanfarin ár og er vinsæll meðal stuðningsmannanna,“ sagði Van der Saar sem vonaðist eftir styttra banni þar sem það hafi augljóslega ekki verið ætlun Onanas að svindla.

Onana og Ajax ætla að áfrýja úrskurði UEFA til CAS, Alþjóða íþróttadómstólsins.

Onana hefur verið aðalmarkvörður Ajax undanfarin fimm tímabil en hann kom ungur til liðsins frá Barcelona. Hann hefur einu sinni orðið hollenskur meistari með Ajax og einu sinni bikarmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×