Ummerki eftir skotin á bíl borgarstjóra.Vísir/Sigurjón
Gæsluvarðhaldi yfir öðrum manninum, sem grunaður er um að hafa skotið með riffli á bíl borgarstjóra og inn um rúður á skrifstofu Samfylkingarinnar, hefur verið framlengt til föstudags.
Mál hans er nú á borði héraðssaksóknara en maðurinn er talinn hættulegur og honum haldið vegna rannsóknarhagsmuna. RÚV greinir frá þessu.
Maðurinn, sem er um sextugt, var handtekinn á laugardag og úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag. Þá var annar maður handtekinn grunaður um aðild að málinu. Honum var sleppt að lokinni skýrslutöku en þeir hafa báðir réttarstöðu sakbornings í málinu. Á heimili mannsins sem nú er í gæsluvarðhaldi fannst töluvert magn af skotvopnum.
Samkvæmt frétt RÚV hefur maðurinn áður komið við sögu lögreglu. Farið hafi verið fram á framlengt varðhald vegna rannsóknarhagsmuna og vegna þess að varðhald er talið nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum hans. Rennur gæsluvarðhaldið út klukkan 16 á föstudag.
Ekki náðist samband við héraðssaksóknara við gerð fréttarinnar.
Samfylkingin lýsir yfir þungum áhyggjum af skotárásum á skrifstofur stjórnmálaflokka og heimili stjórnmálafólks, sem greint hefur verið frá undanfarna daga. Flokkurinn segir engin dæmi um „jafn alvarlega árás í garð stjórnmálamanns á Íslandi“ og í tilfelli árásar á Dag B. Eggertsson, borgarstjóra.
Karlmaður um sextugt var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag úrskurðaður í tveggja daga gæsluvarðhald, eða til 1. febrúar, vegna gruns um aðild að skotárásinni á bíl borgarstjóra um síðastliðna helgi.
Tveir karlmenn hafa verið handteknir í tengslum við skotárásina á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Sá fyrri var handtekinn um miðja viku en á heimili hans fannst töluvert magn skotvopna, líkt og fréttastofa greindi frá í dag. Sá síðari er á fimmtugsaldri og var handtekinn í gær.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.