Fótbolti

Mega hvorki spila á heima­velli né nota nýja ís­lenska leik­manninn sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir fagnar bikarmeistaratitlinum á forsíðu Verdens Gang.
Ingibjörg Sigurðardóttir fagnar bikarmeistaratitlinum á forsíðu Verdens Gang. Verdens Gang

Ingibjörg Sigurðardóttir og félagar hjá Noregsmeisturum Vålerenga eru búnar að missa heimaleik sinn í 32 liða úrslitum Meistaradeildarinnar vegna kórónuveirunnar.

Vålerenga mætir danska félaginu Bröndby í 32 liða úrslitum keppninnar og áttu leikirnir að fara fram í desember, einn á heimavelli Vålerenga og annar á heimavelli Bröndby. Það varð að fresta leikjunum þá vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í báðum löndum.

Leikirnir voru fyrst settir báðir á í febrúar en nú er orðið ljóst að það mun bara fara fram einn leikur.

Vålerenga getur ekki spilað leikinn á heimavelli sínum í Osló og hefur því orðið að gefa eftir heimaleikinn sinn. Það fer því bara fram einn leikur og hann verður spilaður á heimavelli danska félagsins í Kaupmannahöfn í næstu viku.

Vålerenga reyndi líka án árangurs að fá undanþágu fyrir íslensku knattspyrnukonuna Amöndu Andradóttur sem kom til félagsins frá danska félaginu Nordsjælland á dögunum en hún verður ekki lögleg fyrr en 25. febrúar.

Vålerenga hefur misst leikmenn úr meistaraliði sínu en getur ekki notað nýja leikmenn. Það má því helst enginn meiðast á næstunni ef liðið ætlar að eiga í lið á móti Bröndby.

„Í hinum fullkomnna heimi hefðum við spilað leikina heima og að heiman en það var ekki mögulegt núna. Við verðum því bara að undirbúa okkur undir þennan eina leik í Danmörku. Það kom á daginn að það væri ekki raunhæft að spila fyrri leikinn í Noregi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar,“ sagði Eli Landsem, íþróttastjóri Vålerenga á heimasíðu norska félagsins.

Vålerenga reyndi eins og áður sagði að fá undanþágu fyrir Amöndu Andradóttur og þrjá aðra nýja leikmenn liðsins en hún fékkst ekki og því verður hópur norska liðsins þunnskipaður í þessum leik.

„Sem betur fer eigum við sextán góða leikmenn sem eru tilbúnir í þennan leik og gætu komið okkur áfram í keppninni,“ sagði Landsem.

Ingibjörg Sigurðardóttir fer þar fremst í flokki en hún átti frábær fyrsta tímabil með Vålerenga, vann tvöfalt og var kosin leikmaður ársins af norsku úrvalsdeildinni sjálfri.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.