Erlent

Herinn hefur tekið völdin í Mjanmar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Nokkrir af helstu leiðtogum landsins, þar á meðal Aung San Suu Kyi, hafa verið hnepptir í varðhald.
Nokkrir af helstu leiðtogum landsins, þar á meðal Aung San Suu Kyi, hafa verið hnepptir í varðhald. Getty/Fred Dufour

Herinn í Mjanmar hefur tekið yfir stjórn landsins en í nótt voru nokkrir af helstu leiðtogum landsins hnepptir í varðhald, þar á meðal Aung San Suu Kyi, sem í raun hefur leitt landið síðustu ár eftir að herinn losaði tök sín.

Í yfirlýsingu í sjónvarpi sagði herinn að neyðarlög væru komin í gildi næsta árið og völdin væru nú komin í hendur hersins.

Deilur hafa verið í landinu síðustu vikur eftir kosningar í nóvember en herinn stjórnaði Mjanmar allt fram til ársins 2011 þegar samkomulag náðist við stjórnarandstöðuna um að deila völdum í landinu.

Þá varð Aung San Suu Kyi leiðtogi Mjanmar þótt herinn hefði enn sterk tök á stjórninni. Í nóvember síðastliðnum vann flokkur Suu Kyi síðan stórsigur og hefði getað myndað meirihlutastjórn, en herinn vildi meina að brögð hefðu verið í tafli og hefur nú látið til skarar skríða.

Flokkur Suu Kyi hefur birt yfirlýsingu þar sem landsmenn eru hvattir til að mótmæla valdaráni hersins og ríkisstjórnir víða um heim hafa fordæmt aðgerðina, þar á meðal Bandaríkin og Ástralía.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í yfirlýsingu að úrslit kosninganna í nóvember verði virt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×