Innlent

Einn mánuður til við­bótar fyrir að senda þremur fé­lögum nektar­mynd af fyrr­verandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn fékk tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir brot sín í héraðsdómi. Landsréttur dæmdi hann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Maðurinn fékk tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir brot sín í héraðsdómi. Landsréttur dæmdi hann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Vísir/Vilhelm

Landsréttur dæmdi í dag karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa tekið mynd af fyrrverandi sambýliskonu sinni hálfnaktri, sofandi í rúmi með nöktum karlmanni, og sent myndina þremur mönnum.

Manninum var gefið að sök brot gegn blygðunarsemi og stórfelldar ærumeiðingar gegn konunni með því að hafa tekið myndina og sent hana áfram. Maðurinn gekkst við því að hafa tekið ljósmyndina og sent hana félögum sínum.

Rakið er í dómi að maðurinn kom að morgni í íbúð, í hverri hann og konan höfðu búið saman. Hún hafði áður komið því á framfæri við hann að hún vildi binda enda á samband þeirra. Í íbúðinni kom maðurinn að konunni við áðurnefndar aðstæður og tók myndina, sem hann sendi félögum sínum þremur með yfirskriftinni: „Kem heim að [nafn konunnar] svona í morgun.“

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði gerst sekur um stórfelldar ærumeiðingar gegn konunni, auk þess sem hann hefði brotið gegn friðhelgi einkalífs hennar og kynfrelsi. Þá hafi maðurinn rofið skilorð með brotum sínum.

Landsréttur dæmdi manninn að endingu í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi en maðurinn fékk tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm í héraði. Þá var honum gert að greiða konunni 400 þúsund krónur í miskabætur en þær höfðu verið ákveðnar 300 þúsund krónur í héraði. Þá var honum gert að greiða samtals um þrjár milljónir króna í málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns konunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×