Erlent

Bólu­efni AstraZene­ca gæti fengið markaðs­leyfi í Evrópu í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá bólusetningu í Englandi með bóluefni AstraZeneca.
Frá bólusetningu í Englandi með bóluefni AstraZeneca. Getty/Ian Forsyth

Bóluefni bresk-sænska lyfjafyrirtækisins AstraZeneca gegn Covid-19 gæti fengið skilyrt markaðsleyfi í Evrópu í dag. Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) mun funda um bóluefnið í dag og ætti niðurstaða varðandi leyfið að liggja fyrir eftir þann fund.

Boðað hefur verið til blaðamannafundar að loknum fundi sérfræðinganefndarinnar og á hann að hefjast klukkan 14 að íslenskum tíma. Hægt er að fylgjast með beinu streymi frá fundinum hér á vef EMA.

AstraZeneca sótti um markaðsleyfi fyrir bóluefninu í Evrópu þann 12. janúar en það hefur þegar fengið leyfi í Bretlandi og eru bólusetningar með efninu hafnar þar.

Miklar deilur hafa verið milli Evrópusambandsins og AstraZeneca síðustu daga eftir að lyfjafyrirtækið greindi frá því að það gæti ekki uppfyllt dreifingaráætlun sína gagnvart sambandinu.

Munu því mun færri skammtar af bóluefninu berast til ESB á fyrsta ársfjórðungi en ráð var gert fyrir og kveðið er á um í samningi sambandsins við AstraZeneca. Ástæðan fyrir þessu eru vandræði í framleiðslunni á bóluefninu í verksmiðjum í Hollandi og Belgíu.

Krefst trúverðugra skýringa og segir samninginn kristaltæran

Forsvarsmenn ESB og AstraZeneca hittust á krísufundi vegna málsins síðastliðinn miðvikudag og hétu því í kjölfarið að finna lausn á vandanum.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði í útvarpsviðtali í Þýskalandi í morgun að hún vilji gera samning sambandsins við AstraZeneca um bóluefnið opinberan.

Þá sagði hún samninginn bindandi og krafðist trúverðugra skýringa á töfunum sem orðið hafa við framleiðsluna. Samningurinn væri auk þess kristaltær.

ESB og AstraZeneca undirrituðu samninginn í ágúst. Í frétt BBC segir að samningurinn, sem undirritaður var í ágúst, hafi kveðið á um 300 milljónir skammta til ESB þegar markaðsleyfi lægi fyrir með möguleika á 100 milljónum skammta til viðbótar.

Samkvæmt heimildum BBC munu hins vegar aðeins um 25 milljónir skammtar berast til ESB í mars af þeim 100 milljónum skammta sem búist var við.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×