Innlent

Tvö greinileg ummerki eftir riffilinn á bíl borgarstjóra

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Bíllinn er í vörslu lögreglu og stendur rannsókn yfir.
Bíllinn er í vörslu lögreglu og stendur rannsókn yfir. Vísir/Sigurjón

Skotið var tvívegis á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um helgina. Bæði skotin höfnuðu í einni bílhurðinni og líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum eru förin greinileg. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.

Talið er nær fullvíst að skotið hafi verið úr riffli, en rannsókn málsins miðar meðal annars að því athuga hvort um sé að ræða sama skotvopn og notað var þegar skotið var á skrifstofur stjórnmálaflokkanna í síðustu viku. Þar fundust 22 kalíbera byssukúlur.

Dagur B. Eggertsson sagði í samtali við fréttastofu síðdegis að sér sé brugðið eftir að skotið var á bíl hans enda höggvi þetta að heimili hans. Lögreglan hefur vaktað hús borgarstjóra frá því málið kom uppVísir/Sigurjón

Dagur sagði við fréttastofu síðdegis það hafa verið áfall að sjá að skotið hafi verið á fjölskyldubílinn. Þarna hafi verið vegið að fjölskyldu hans og einkalífi, sem megi ekki líðast.

„Ég er auðvitað í stjórnmálum og það ganga stundum gusurnar þar en þetta heggur að heimilinu, þar sem ekki bý bara ég heldur fjölskylda mín,“ sagði Dagur.

Skotförin eru greinileg. Vísir/Sigurjón

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Hann sagði málið litið alvarlegum augum og rannsókn þess í fullum gangi.

Hér fyrir neðan má sjá kvöldfrétt Stöðvar 2 um málið.


Tengdar fréttir

Degi afar brugðið vegna skotárásarinnar

Degi B. Eggertssyni borgarstjóra er afar brugðið vegna skotárásarinnar. Lögreglan hefur vaktað hús borgarstjóra frá því málið kom upp en hún hefur fundið byssukúlur í hurð bíls hans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×