Innlent

Biður Kópa­vogs­bæ um að lag­færa verk­ferla

Sylvía Hall skrifar
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Vísir/Vilhelm

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, hefur sent erindi til Kópavogsbæjar eftir fregnir af því að notandi svokallaðrar NPA-þjónustu hafi ekki fengið boð í bólusetningu líkt og til stóð. Hún segist vita að Kópavogsbær vilji tryggja fötluðu fólki jafnræði og vonast til að farið verði yfir verkferla.

NPA-þjónusta stendur fyrir notendastýrð persónuleg aðstoð, en fatlað fólk semur við sitt sveitarfélag um að sjá um og skipuleggja aðstoðina. Vísir greindi frá því í dag að Salóme Mist Kristjánsdóttir, ein þeirra sem nýtir sér NPA-þjónustu, hafði ekki fengið boð í bólusetningu í gær þegar hennar hópur átti að fá fyrstu sprautu af bóluefni.

Hún hafði samband við heilsugæsluna sem sagði henni að listi yfir fólk í hennar stöðu hafði ekki borist frá Kópavogsbæ.

„Þau voru bara miður sín yfir því að við hefðum gleymst. Mér skilst að það eigi að reyna að taka okkur inn næst þegar það kemur bóluefni. En það er náttúrlega einhver bið eftir því og við erum náttúrlega í áhættu á meðan,“ segir Salóme.

Þuríður Harpa segir í erindi sínu að svo virðist sem misbrestur hafi verið á upplýsingagjöf sveitarfélagsins. Hún hafi persónulega orðið vör við að talsvert hafi borið á ótta hjá langveiku fötluðu fólki um að það gleymist þegar kemur að bólusetningum.

„Ég tel að það sé mikilvægt að koma þessu á framfæri við ykkur hið fyrsta, í þeirri von að þið lagfærið verkferla hjá ykkar sveitarfélagi, hafi það ekki verið gert nú þegar,“ skrifar Þuríður Harpa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.