Fótbolti

Stór­sigur hjá læri­sveinum Gerrard og Roon­ey með mikil­vægan sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Wayne Rooney og lærisveinar hans unnu mikilvægan 1-0 sigur í dag.
Wayne Rooney og lærisveinar hans unnu mikilvægan 1-0 sigur í dag. Clive Rose/Getty Images

Tveir af dáðustu sonum enskrar knattspyrnu – Steven Gerrard og Wayne Rooney – stýrðu liðum sínum til sigurs í dag. Rangers lagði Ross County 5-0 í Skotlandi og Derby County vann QPR 0-1 á útivelli.

Rooney tók nýverið við Derby í ensku B-deildinni en liðið er í bullandi fallhættu. Hann var áður leikmaður en lagði skónna á hilluna til að taka við stjórnartaumunum á hliðarlínu félagsins. Liðið vann gríðar mikilvægan 0-1 útisigur á Queens Park Rangers í dag. Gamla brýnið Colin Kazim-Richards skoraði eina mark leiksins á 57. mínútu.

Derby er nú með 25 stig eftir 25 leiki, fimm stigum fyrir ofan fallsæti. Rotherham United er sæti fyrir neðan lærisveina Rooney en á þrjá leiki til góða. Þá getur Sheffield Wednesday einnig jafnað Derby að stigum en liðið á tvo leiki til góða.

Í skosku úrvalsdeildinni vann enn einn stórsigurinn. Liðið lagði Ross County 5-0 þó svo að James Tavernier hafi klúðrað vítaspyrnu.

Ryan Kent kom Rangers yfir á 6. mínútu leiksins. Filip Helander og Joe Aribo bættu við mörkum í fyrri hálfleik og staðan því 3-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Ryan Jack og Connor Goldson voru einnig á skotskónum í síðari hálfleik. Lokatölur 5-0 og Rangers nú með 23 stiga forystu í deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.