Erlent

Tugir mótmælenda handteknir í Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmælandi handtekinn í Moskvu.
Mótmælandi handtekinn í Moskvu. AP/Pavel Golovkin

Tugir hafa verið handteknir í Rússlandi í morgun eftir að stuðningsmenn stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní komu saman til að mótmæla handtöku hans. Navalní og bandamenn hans kölluðu eftir mótmælum í kjölfar þess að hann var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrir að hafa brotið gegn skilorði með því að fara til Þýskalands í sumar.

Mótmælin byrjuðu í austasta hluta Rússlands í morgun og er búist við frekari mótmælum vestar í landinu í dag. Lögreglan í Moskvu hefur girt af torg í miðborg borgarinnar þar sem mótmæli áttu að fara fram.

Myndbandsupptökur frá Vladivostok sýndu lögregluþjóna í óeirðabúnaði elta mótmælendur og sömuleiðis komu mótmælendur saman í borginni Khabarovsk. Þar kölluðu mótmælendur orðin „skömm“ og „þjófar“, samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

Sjá einnig: Pútín ekki hræddur við Navalní

Hér má sjá myndband frá blaðamanni Guardian í Moskvu sem segir fjölmarga hafa verið komna saman klukkustund áður en mótmælin áttu að hefjast.

Moscow Times segir að allt að ellefu þúsund manns hafi komið saman í borginni Yekaterinburg, þar sem var 30 gráðu frost í morgun.

Í aðdraganda þeirra vöruðu yfirvöld í Rússlandi við því að fólk tæki þátt í mótmælunum fyrirhuguðu og voru nokkrir af helstu bandamönnum Navalnís handteknir í aðdraganda þeirra.

Sjá einnig: Bandamenn Navalnís handteknir vegna mótmæla

Navalní var fluttur í dái til Þýskalands eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu novichok í Rússlandi í sumar.

Vísindamenn í Þýskalandi, Svíþjóð og Frakklandi, auk vísindamanna Efnavopnastofnunarinnar, hafa staðfest að eitrað var fyrir Navalní með novichok, eitrið sem þróað var í Sovétríkjunum.

Navalní hefur sakað Valdimir Pútín, forseta Rússlands, um að bera ábyrgð á eitruninni.

Hér má sjá myndband af Twittersíðu bandamanna Navalní.

Reuters hefur eftir bandamanni Navalnís að hann og ráðgjafar hans hafi búst við því að hann yrði handtekinn við komuna til Rússlands. Hann segir ásakanirnar gegn sér ósannar. Þau hafi skipulagt það að boða til mótmæla í Rússlandi til að reyna að þvinga yfirvöld í Rússlandi til að sleppa honum úr haldi.

Sjá einnig: Skipað að snúa aftur til Rússlands vegna skilorðs sem fellur úr gildi á morgun

Heimildarmenn fréttaveitunnar innan stjórnvalda Rússlands segja þó verulega ólíklegt að Navalní verði sleppt úr haldi. Hann sé orðin ógn gegn Pútín og verði í það minnsta í fangelsi fram yfir þingkosningar í september.

Hér að neðan má sjá nokkur myndbönd frá Moskvu. Það efsta er frá því þegar lögregluþjónar handtóku aðgerðasinnann Lyubov Sobol. Hún er bandamaður Navalnís og var handtekin í miðju viðtali við fjömiðla. Seinna myndbandið er frétt Sky News frá því í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×