Enski boltinn

Liverpool hefur ekki skorað deildarmark síðan Thiago kom aftur úr meiðslum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thiago Alcantara hefur fengið hrós fyrir frammistöðu sína í leikjum hans með Liverpool en hún er samt ekki að skila Liverpool liðinu mörkum.
Thiago Alcantara hefur fengið hrós fyrir frammistöðu sína í leikjum hans með Liverpool en hún er samt ekki að skila Liverpool liðinu mörkum. Getty/Andrew Powell

Liverpool liðið hefur ekki skorað í meira en sjö klukkutíma í ensku úrvalsdeildinni og lærisveinar Jürgen Klopp eru enn markalausir á árinu 2021.

Þegar eitt heitasta knattspyrnulið Englands snöggkólnar svona þá vakna auðvitað upp margar spurningar. Það er einkum eitt nafn sem er á milli tannanna á fólki.

Heimsklassamiðjumaðurinn sem Liverpool fékk á útsöluverði í haust.

Var Thiago Alcantara rétti maðurinn fyrir Liverpool liðið? Vissulega góður leikmaður en hentar hann leikstíl Jürgen Klopp? Tölurnar eru ekki alveg með spænska miðjumanninum á þessari leiktíð.

Thiago Alcantara meiddist í fyrsta byrjunarliðsleik sínum í ensku úrvalsdeildinni sem var á móti Everton 17. október. Hann missti af næstu tíu deildarleikjum liðsins vegna þeirra hnémeiðsla.

Thiago snéri aftur í leik á móti Newcastle 30. desember síðastliðinn. Hann spilaði sautján síðustu mínúturnar í markalausu jafntefli.

Thiago Alcantara hefur síðan verið í byrjunarliðinu í þremur síðustu deildarleikjum Liverpool og uppskeran er eitt stig af níu mögulegum.

Liverpool hafði skorað í öllum leikjum sínum á tímabilinu þegar Thiago Alcantara sneri aftur úr meiðslum en hefur ekki skorða eitt einasta mark síðan.

Liverpool hefur alls spilað fjóra heila leiki í röð án þess að skora í ensku úrvalsdeildinni og það eru núna liðnar 438 leikmínútur síðan Sadio Mane skoraði á tólftu mínútu á móti West Bromwich Albion.

72 skottilraunir leikmanna Liverpool hafa ekki skilað einu einasta marki.

Nú er svo komið að það þarf að fara alla leið til ársins 2000 til að finna lengri tíma hjá Liverpool án marks í ensku úrvalsdeildinni.

Í maí 2000 þá endaði Liverpool liðið tímabilið á því að skora ekki í síðustu fimm leikjum tímabilsins, gerði þá markalaus jafntefli við Everton og Southampton og tapaði fyrir Chelsea (0-2), Leicester (0-2) og Bradford City (0-1).

Á þeim tíma var Jürgen Klopp enn að spila en hann lék þessa leiktíð 30 deildarleiki með Mainz 05 í þýsku b-deildinni og skoraði í þeim fjögur mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×