Fótbolti

Sara Björk sannfærði Alexöndru um að þetta væri rétta skrefið fyrir hana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir í fyrsta viðtalinu á EintrachtTV en þau verða væntanlega miklu fleiri í framtíðinni.
Alexandra Jóhannsdóttir í fyrsta viðtalinu á EintrachtTV en þau verða væntanlega miklu fleiri í framtíðinni. Skjámynd/EintrachtTV.

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir átti sinn þátt í því að liðfélagi hennar, inn á miðju íslenska landsliðsins, valdi þýsku deildina þegar hún leitaði að sínu fyrsta félagi í atvinnumennsku.

Eintracht Frankfurt kynnti Alexöndru Jóhannsdóttur fyrir stuðningsmönnum í viðtali á heimasíðu þýska félagsins.

Alexandra sagði þar meðal annars frá því hvernig fyrstu dagarnir hennar í Frankfurt hafa verið.

„Fyrstu kynnin eru mjög góð og allir eru mjög almennilegir við mig. Það lítur allt mjög vel út,“ sagði Alexandra Jóhannsdóttir brosandi.

Frankfurt er í sjötta sætinu í þýsku Bundelsligunni en keppni hefst aftur í febrúar eftir vetrarfrí.

„Ég bý í íbúð með tveimur öðrum stelpum í liðinu og þær hafa tekið rosalega vel á móti mér,“ sagði Alexandra en af hverju valdi hún þýsku deildina og lið Eintracht Frankfurt?

„Ég er mjög hrifin af þýsku deildinni sem er sterkari en sú íslenska. Frankfurt er að standa sig vel og hér eru fullt af góðum leikmönnum. Þetta er gott tækifærið fyrir mig,“ sagði Alexandra.

Spyrillinn forvitnaðist um hvaða væntingar Alexandra gerði til tímans hjá Eintracht Frankfurt.

„Ég vonast til að vaxa sem leikmaður og verða betri,“ sagði Alexandra.

„Sara hjálpaði mér mikið í þessu ferli og hún sannfærði mig um að taka þetta skref og koma hingað. Hún sagði mér frá þýsku deildinni og ég tók hennar ráðum og valdi að koma hingað, sagði Alexandra en það má sjá viðtalið við hana hér á EintrachtTV.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.