Moyes hafði betur gegn Stóra Sam

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sam Allardyce hafði engan tíma til að ræða við David Moyes eftir 2-1 sigur West Ham gegn WBA í kvöld.
Sam Allardyce hafði engan tíma til að ræða við David Moyes eftir 2-1 sigur West Ham gegn WBA í kvöld. Glyn Kirk/Getty Images

Skólastjórar gamla skólans – David Moyes og Sam Allardyce – mættust með lið sín West Ham United og West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Fór það svo að West Ham hafði betur, 2-1.

Leikurinn var stál í stál framan af fyrri hálfleik en gestirnir í West Brom eru í bullandi fallbaráttu. Það var því eins og blaut tuska er Jarrod Bowen kom lærisveinum Moyes yfir undir lok fyrri hálfleiks. Staðan 1-0 er liðin gengu til búningsherbergja.

Matheus Pereira jafnaði metin snemma í síðari hálfleik fyrir WBA en Michail Antonio getur ekki hætt að skora og tryggði West Ham sigur með marki á 66. mínútu leiksins. Staðan orðin 2-1 heimamönnum í vil og reyndust það lokatölur.

Lærisveinar Moyes fóru því með sigur af hólmi og eru komnir upp í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 32 stig. Á sama tíma er WBA í 19. sæti með aðeins ellefu stig.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.