Erlent

Rannsaka bakgrunn þúsunda þjóðvarðliða

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikill viðbúnaður er í Washington-borg vegna innsetningar Joes Biden í embætti forseta síðar í vikunni.
Mikill viðbúnaður er í Washington-borg vegna innsetningar Joes Biden í embætti forseta síðar í vikunni. Getty/Tasos Katopodis

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, rannsakar nú bakgrunn þeirra 25 þúsund þjóðvarðliða sem væntanlegir eru til Washington-borgar í vikunni til þess að gæta öryggis þegar Joe Biden sver embættiseið sinn sem forseti Bandaríkjanna. Innsetningin verður á miðvikudag.

Þjóðvarðliðar eru varalið bandaríska hersins og eru sjálfboðaliðar úr hópi almennra borgara. Bakgrunnur varðliðanna er rannsakaður þar sem yfirvöld óttast að einhverjir í hópi þjóðvarðliðanna muni gera árás við innsetninguna.

Ryan McCarthy, hermálaráðherra Bandaríkjanna, segir í samtali við fréttastofu AP að hann hafi beðið stjórnendur í hernum að fylgjast sérstaklega með hvort einhver vandamál komi upp í röðum varðliðanna. Enn sem komið er hefur ekkert komið upp og rannsókn FBI ekki leitt neitt alvarlegt í ljós.

Síðan hryðjuverkaárásirnar voru gerðar 11. september 2001 hefur ógnin af yfirvofandi árás öfgahópa verið forgangsmál hjá lögreglu- og hernaðaryfirvöldum. Hingað til hefur sú ógn þó aðallega verið tengd íslömskum öfgahópum á borði við Al Kaída og ISIS.

Nú kemur ógnin hins vegar frá stuðningsmönnum Donalds Trump, fráfarandi forseta, og hópum á borð við þá sem trúa á yfirburði hvíta kynstofnsins.

Margir sem skipa þessa hópa trúa ásökunum Trumps um að víðtækt svindl forsetakosningunum í nóvember þrátt fyrir að ásakanirnar eigi ekki við rök að styðjast.

Það sem yfirvöld óttast helst í tengslum við innsetningu Bidens er vopnuð árás einstaklinga sem og sprengjuárás. Að sögn McCarthy benda leyniþjónustugögn til þess að einhverjir hópar séu að skipuleggja vopnaðar samkomur í aðdraganda innsetningarinnar og hugsanlega eftir að henni lýkur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×