Erlent

Bjó á flugvellinum í Chicago í þrjá mánuði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Að því er virðist tókst manninum að búa á flugvellinum í þrjá mánuði án þess að nokkur tæki eftir honum.
Að því er virðist tókst manninum að búa á flugvellinum í þrjá mánuði án þess að nokkur tæki eftir honum. Getty/Scott Olson

Aditya Singh, 36 ára gamall maður frá Kaliforníu, var handtekinn um helgina á O‘Hare-alþjóðaflugvellinum í Chicago og ákærður fyrir ýmis brot, meðal annars þjófnað og að hafa farið í leyfisleysi inn á lokað svæði á vellinum.

Í frétt Guardian um málið segir að maðurinn hafi búið á flugvellinum í þrjá mánuði. Hann á að hafa sagt lögreglunni að hann hafi ákveðið að halda kyrru fyrir á vellinum því hann hafi ekki þorað að fara heim til Los Angeles af ótta við Covid-19.

Singh mun hafa lent á O‘Hare-flugvelli þann 19. október í fyrra og var þá að koma frá Los Angeles. Næstum þremur mánuðum seinna báðu tveir starfsmenn flugfélagsins United Airlines Singh um að sýna sér skilríki. Hann sýndi þeim þá aðgangskort að flugvellinum. Eigandi kortsins, starfsmaður á flugvellinum, hafði tilkynnt í lok október að kortinu hefði verið stolið.

Kathleen Hagerty, saksóknari, sagði dómaranum í málinu, Susan Ortiz, að aðrir farþegar hefðu gefið Singh mat. Hann hefði ekki áður komist í kast við lögin.

„Ertu að segja mér að maður sem hvorki er í vinnu á flugvellinum né hefur leyfi til að vera þar hafi búið á öryggissvæði vallarins í þrjá mánuði án þess að nokkur tæki eftir honum? Ég vil vera viss um að ég skilji þig rétt,“ spurði Ortiz dómari þegar málið var tekið fyrir um helgina.

Hún sagði staðreyndir málsins ansi sjokkerandi enda legðu flugvellir gríðarlega áherslu á öryggi farþega. Þarna hefði hins vegar manni tekist að dvelja á öryggissvæði flugvallarins í marga mánuði með stolnum skilríkjum. Taldi dómarinn Singh ógn við almenning og úrskurðaði hann í varðhald.

Flugmálayfirvöld í Chicago hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Sagði meðal annars í yfirlýsingunni að eftir því sem yfirvöld kæmust næst hefði Singh ekki stofnað neinum í hættu á meðan hann dvaldi á flugvellinum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.