Talsverðri úrkomu er spáð á Seyðisfirði frá miðnætti í nótt og á morgun. Úrkoman hefst um klukkan sjö í kvöld og bætir svo í eftir miðnætti. Veðurstofa spáir því að úrkomu lægi annað kvöld.
Vel er fylgst með hreyfingum í hlíðinni ofan Seyðisfjarðar. Stöðugleiki í jarðlögum hefur aukist en miðað við úrkomuspár hefur verið ákveðið að íbúðarhús í jaðri byggðar verði rýmd í kvöld og fram á sunnudag.
Öll hús við Botnahlíð verða rýmd, Múlavegur 37, Baugsvegur 5 og Austurvegur 36, 38a, 40b, 42, 44, 44b, 46, 46b, 48, 50, 52, 54 og 56.
Rýmingin er gerð í varúðarskyni vegna óvissu um stöðugleika hlíðanna í Botnabrún eftir skirðuföllin í desember og óvíst er hvernig jarðlögin bregðast við mikilli úrkomu. Fram kemur í tilkynningunni að rýming á Seyðisfirði verði lögð til í skrefum eftir því sem meyri reynsla fæst á stöðugleika hlíðarinnar.
Rýmingin sem nú er þegar í gildi verður það áfram. Hún varir fram á sunnudagsmorgun en þá verður staðan metin að nýju.
Íbúar sem eru beðnir um að rýma heimili sín eru beðnir um að mæta í fjöldahjálparstöðina í Herðubreið ef húsnæði, akstur til Egilsstaða eða annað vantar. Fólk er beðið um að hringja í 1717 ef það hefur annan samastað og ef fólk ætlar sjálft út úr bænum eða í annað húsnæði á Seyðisfirði.
Nauðsynlegt er að allir skrái sig um leið og húsnæði er rýmt.
Fjöldahjálparmiðstöðin verður opin yfir helgina eins og þörf þykir. Þjónustumiðstöð almannavarna verður áfram opin í Herðubreið á Seyðisfirði í næstu viku.