Haft var eftir Kára í Fréttablaðinu í byrjun vikunnar að Mette [Skovdal], fulltrúi Pfizer í Skandinavíu sem var viðstödd fund Kára, sóttvarnalæknis og landlæknis með Pfizer, hefði brotið trúnað og sagt dönskum yfirvöldum frá viðræðunum. Danir vildu nú vera með í samningum.
Hefði átt að vera varkárari
Kári sagði síðar í samtali við Vísi að hann sæi eftir því að hafa ekki verið varkárari í orðum sínum; hann myndi ekki lýsa því þannig að Danir væru að „eyðileggja“ samningaviðræður Íslands og Pfizer, líkt og haft var eftir honum í Fréttablaðinu. Það hefði þó vissulega verið „óheppilegt“ að fulltrúi Pfizer hefði sagt frá málinu án þess að fá leyfi fundargesta til þess.
„Það bara tíðkast ekki,“ sagði Kári. „Ég hefði átt að vera varkárari í orðum mínum, þannig að þetta skrifast jafnt á mig sem Mette.“
Nokkrar tillögur um rannsóknir til skoðunar
Vísir leitaði viðbragða frá Skovdal vegna frásagnar Kára á þriðjudag. Hún kvaðst ekki geta tjáð sig um málið og vísaði á samskiptastjóra Pfizer í Danmörku.
Fram kemur í svari Pfizer sem barst í morgun að Pfizer „kannist ekki við“ frásögn Kára. Tekið er fram að nokkrar tillögur um rannsókn á virkni bóluefnisins séu til skoðunar í mismunandi löndum, þar á meðal Íslandi. Þar sem viðræður séu í gangi geti Pfizer ekki tjáð sig frekar um málið að svo stöddu.
Svar Pfizer við fyrirspurn Vísis má sjá í heild hér fyrir neðan.
Pfizer does not recognize the account by Mr. Stefánsson. There are several types of real-world effectiveness proposals that are under evaluation in different countries, including Iceland. As discussions are ongoing we are unable to provide further comment at this point.
Bæði Kári og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir bjuggust við viðbrögðum frá Pfizer vegna viðræðnanna í þessari viku. Þórólfur sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að hann hefði ekkert heyrt frá fyrirtækinu.
Þá sagði hann viðræður í gangi við alla bóluefnaframleiðendur sem selja Íslandi bóluefni. Margt bæri þar á góma en ekkert væri í gangi í þeim efnum sem vert væri að tala um.