Innlent

Segir um­boðs­mann Pfizer hafa brotið trúnað um við­ræður Ís­lendinga við fyrir­tækið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Vísir/Vilhelm

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir Dani að öllum líkindum vera að eyðileggja fyrir Íslendingum gagnvart lyfjafyrirtækinu Pfizer um að rannsaka áhrif bóluefnis gegn Covid-19 á heila þjóð.

Danir hafi blandað sér inn í viðræðurnar en Kári og Þórólfur hafa verið í samtali við Pfizer um rannsóknina. Íslendingar myndu þá fá viðbótarbóluefni hratt og vel.

Fjallað er um málið á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Þar segir að rótin að þessu sé trúnaðarbrestur umboðsmanns Pfizer í Skandinavíu. Umboðsmaðurinn er dönsk kona sem Kári segir að heiti Mette og að hún hafi verið á fundinum sem hann og Þórólfur áttu með vísindamönnum Pfizer.

Kári kveðst hafa fengið skilaboð tveimur dögum eftir fundi frá yfirmanni dönsku sóttvarnastofnunarinnar þar sem honum var tjáð að Danir hefðu verið í viðræðum við lyfjafyrirtækið.

„Hann sagði að Metta hefði sagt þeim frá viðræðunum og hann ætlaði að reyna að sjá til þess að Danir fengju að vera með,“ segir Kári í Fréttablaðinu í dag.

Að hans mati sé fráleitt að Danir og Íslendingar geti verið saman í þessu þar sem Ísland hafi sérstöðu og hægt væri að vinna góða rannsókn hér.

„Mette hafði ekki heimild til að segja frá þessu, hún kjaftaði frá, og þeir ætla að reyna að lauma sér in í þetta á einhvern máta sem er ekki hægt,“ segir Kári.

Hann segist ekki vita hvar ferlið standi nákvæmlega núna, en býst þó við að heyra frá Pfizer í fyrri hluta vikunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×