Innlent

Segir öll samskipti sín við Pfizer hafa verið fín

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/vilhelm

Sóttvarnalæknir segir öll samskipti sín við fulltrúa lyfjaframleiðandans Pfizer hafa verið fín. Hann hefur ekki fengið veður af meintum trúnaðarbresti dansks fulltrúa Pfizer, sem forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar lýsti í viðtali í Fréttablaðinu í morgun.

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sagði í samtali við blaðið að Danir væru að öllum líkindum að „eyðileggja“ samningaviðræður Íslendinga við Pfizer um bóluefnisrannsókn hér á landi.

Kári lýsti því að trúnaðarbrestur fulltrúa Pfizer í Skandinavíu, konu að nafni Mette, væri rót vandans. Hún hefði verið á fundi Kára og Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis með vísindamönnum Pfizer og sagt dönskum sóttvarnayfirvöldum frá viðræðunum. Danir vildu nú vera með í samningum, sem Kári taldi ekki vænlegt.

Þórólfur segir í samtali við fréttastofu að hann viti raunar ekkert um málið og geti ekkert fullyrt um það.

„Samskiptin sem ég hef átt við alla fulltrúa Pfizer hafa verið bara fín. Þetta er eitthvað sem Kári þarf að útskýra betur, ég veit ekki alveg um hvað þetta snýst,“ segir Þórólfur.

Vísir hafði samband við Mette Skovdal, umræddan fulltrúa Pfizer, í morgun. Hún kvaðst ekki geta tjáð sig um málið og vísaði á talsmann fyrirtækisins. Vísir hefur sent Pfizer fyrirspurn vegna málsins.


Tengdar fréttir

Bóluefni Moderna komið til landsins

Bóluefni Moderna gegn Covid-19 er komið til landsins. Um er að ræða 1200 skammta af efninu sem verða notaðir til þess að ljúka bólusetningu einstaklinga í framlínu. Í kjölfarið munu svo berast 1200 skammtar af bóluefninu á tveggja vikna fresti.

WHO: Hjarðónæmi næst ekki á þessu ári

Soumya Swaminathan, aðalvísindamaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), segir að heimurinn nái ekki hjarðónæmi gegn Covid-19 á þessu ári. Þetta er þrátt fyrir að bólusetningar séu hafnar í um þrjátíu löndum í heiminum, þar á meðal hér á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×