Fótbolti

Fór lítið fyrir Gylfa Þór sem spilaði ó­vænt frammi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gylfi Þór átti ekki sinn besta leik í gærkvöld.
Gylfi Þór átti ekki sinn besta leik í gærkvöld. Marc Atkins/Getty Images

Miðjumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson bar fyrirliðaband Everton er liðið mætti Wolves á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Gylfi Þór var óvænt í stöðu framherja í leiknum og átti ekki sinn besta leik.

Carlo Ancelotti, þjálfari Everton, var með framherjana Cenk Tosun og Richarlison á varamannabekk Everton í gær en sagði þá ekki í nægilega góðu líkamlegu ásigkomulagi til að byrja leikinn. 

Brasilíumaðurinn kom að lokum inn af varamannabekknum fyrir Gylfa Þór þegar fimmtán mínútur lifðu leiks. Fram að því hafði Gylfi ekki átt sinn besta leik, það er skiljanlegt þar sem Wolves eru erfiðir heim að sækja og spila skipulagðan varnarleik. 

Á tölfræðivefnum WhoScored fékk Gylfi Þór 6.3 í einkunn. Aðeins Richarlison, Mason Holgate og Seamus Coleman fengu lægri einkunn í Everton-liðinu. Jordan Pickford, Yerri Mina og Lucas Digne fengu svo 6.6 í einkunn.

Á vef staðarblaðsins Liverpool Echo fékk Gylfi aðeins 5 í einkunn.

„Það er ekki auðvelt þegar þú ert beðinn um að leiða línuna sem framherji þegar þú ert ekki vanur að spila sem fremsti maður. Gylfi Þór var nær alltaf með bakið í markið þegar hann fékk boltann en Carlo Ancelotti hefur samt reiknað með því að Gylfi myndi tengja spila liðsins betur saman,“ segir um frammistöðu íslenska landsiðsmannsins.

Á vef BBC fær Gylfi Þór 6.4 í einkunn en þar getur hver sem er gefið einkunn.

Everton vann hins vegar leikinn 2-1 á endanum og er því jafnt Leicester City að stigum í þriðja og fjórða sæti deildarinnar. Bæði lið með 32 stig á meðan Liverpool er í öðru sæti með 33 og Manchester United trónir á toppnum með 36 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.