Innlent

Kaþólska kirkjan byrjar messuhald á ný

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hóf í byrjun janúar formlega rannsókn á meintu sóttvarnabroti kaþólsku kirkjunnar eftir að fleiri en fimmtíu manns komu saman í messu í Landakotskirkju sunnudaginn 3. janúar.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hóf í byrjun janúar formlega rannsókn á meintu sóttvarnabroti kaþólsku kirkjunnar eftir að fleiri en fimmtíu manns komu saman í messu í Landakotskirkju sunnudaginn 3. janúar. Vísir/Sigurjón

Kaþólska kirkjan á Íslandi hyggst hefja messuhald á ný þegar breyttar samkomutakmarkanir taka gildi á morgun. Messum á vegum kirkjunnar var aflýst í byrjun mánaðar eftir að of margir komu þar saman í að minnsta kosti tvígang.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá kirkjunni, sem biskupinn David B. Tencer skrifar undir. Tuttugu mega koma saman í stað tíu áður með nýjum samkomutakmörkunum sem taka gildi á morgun, 13. janúar. 

Í ljósi þessa hefur kirkjan ákveðið að byrja aftur með opinberar messur. Í tilkynningu segir að sóknarprestar sem sjái að of margir vilji koma í messu geti fjölgað messum. Sérstaklega er tekið fram að allir prestar geti lesið þrjár messur á sunnudögum.

„Á sama tíma er þessum prestum boðið að sækja um undanþágu fyrir fleiri kirkjugesti hjá sóttvarnayfirvöldum,“ segir í tilkynningu.

Vilja leyfa hundrað í venjulegri messu

Þá áréttar kirkjan þá skoðun sína að sóttvarnareglur sem gilda um helgihald séu ósanngjarnar.

„Við vonum að þeir sem bera ábyrgð á sóttvarnarreglum skilji það vel, að fyrst 100 manns geta verið viðstaddir sálumessu (jarðarför) (og teljast börn fædd eftir 2005 ekki með í þeim fjölda) ætti að vera hægt að leyfa 100 persónur við venjulega messu í sama rými. Covid er okkar sameiginlegi óvinur. Reynum sem best að hjálpa við að sigrast á þessari farsótt og endilega biðjum Guð um þá náð frá honum.“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hóf í byrjun janúar formlega rannsókn á meintu sóttvarnabroti kaþólsku kirkjunnar eftir að fleiri en fimmtíu manns komu saman í messu í Landakotskirkju sunnudaginn 3. janúar.

Lögregla hafði áður haft afskipti af helgihaldi í kirkjunni á aðfangadag, þar sem talið er að á annað hundrað manns hafi verið samankomnir í pólskri jólamessu.


Tengdar fréttir

Biður fyrir því að sóttvarnayfirvöld „íhugi málin með visku“

„Ég lýsi yfir að þrátt fyrir góðan vilja getum við ekki fylgt öllum gildandi sóttvarnareglum í sambandi við messuhald í kirkjum okkar. Með harm í hjarta hef ég tekið þá ákvörðun að aflýsa öllum opinberum sunnudags­messum og vigilmessum á laugardagskvöldum. Ákvörðunin tekur þegar gildi.“

„Maður verður fyrst og fremst dapur þegar maður fær svona fréttir“

„Einstök mál eru rannsökuð hjá staðarlögreglu eftir því sem við á, sem í þessu tilfelli er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, þegar fréttastofa leitaði eftir viðbrögðum hans við mannmargri messu sem haldin var í Landakotskirkju í dag.

Of margir í messu í Landakotskirkju í dag

Allt of margir voru komnir saman til messu í Landakotskirkju á öðrum tímanum í dag og mætti lögreglan á staðinn og ræddi við sóknarprest. Rúv greinir frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×