E­ver­ton heldur í við topp­liðin með góðum sigri á Wol­ves

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Keane fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Keane fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Tim Keeton/Getty Images

Everton vann 2-1 útisigur á Wolves í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Sigurmarkið skoraði miðvörðurinn Michael Keane á 77. mínútu leiksins.

Athygli vakti að Gylfi Þór Sigurðsson, fyrirliði Everton í kvöld, hóf leikinn frammi ásamt James Rodriguez en Carlo Ancelotti sagði í viðtali fyrir leik að hvorki Cenk Tosun né Richarlison væru í standi til að byrja leikinn. Þess í stað voru þeir á bekknum.

Gestirnir í Everton hófu leikinn af krafti og Alex Iwobi kom þeim yfir eftir sendingu Lucas Digne strax á sjöttu mínútu leiksins. Heimamenn voru ekki lengi að jafna metin en það gerði Ruben Neves aðeins átta mínútum síðar.

Eins ótrúlegt og það hljómar urðu mörkin ekki fleiri í fyrri hálfleik og staðan því 1-1 er flautað var til loka fyrri hálfleiks. Síðari hálfleikur var einnig frekar rólegur framan af og var Gylfi Þór tekinn af velli fyrir Richarlison á 75. mínútu leiksins.

Sigurmark leiksins kom svo fjórum mínútum síðar. Andre Gomes – sem hafði komið inn af bekknum fyrir Tom Davies í síðari hálfleik – átti þá frábæra sendingu á fjærsvæðið þar sem Michael Keane reis hæst og stangaði knöttinn í netið.

Staðan orðin 2-1 gestunum í vil og reyndust það lokatölurnar í kvöld. Everton er nú jafnt Leicester City að stigum í töflunni en liðin eru jöfn með 32 stig í þriðja og fjórða sæti. Liverpool er stigi þar á undan og Manchester United trónir á toppnum með 36 stig.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.