Innlent

Þrjár leiðir heilsu­gæslunnar til að ná til eldra fólks vegna bólu­setningar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Vísir/Egill

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að heilsugæslan vinni eftir þremur leiðum til þess að hafa samband við eldra fólk vegna bólusetningar gegn Covid-19.

Eins og greint hefur verið frá koma 1200 skammtar af bóluefni Moderna til landsins í dag. Skammtarnir verða notaðir til að ljúka bólusetningu einstaklinga í framlínuhópum.

Til viðbótar skömmtum Moderna er svo á á 3.000 skömmtum af bóluefninu frá Pfizer í næstu viku og 2.000 skömmtum eftir tvær vikur. Þessir skammtar yrðu notaðir til að bólusetja forgangshópinn sem er 70 ára og eldri.

Uppi hafa verið áhyggjur af því að erfitt gæti reynst að ná til eldri borgara þar sem þeir notast ekki allir við smáskilaboð og/eða tölvupóst.

Ragnheiður segir heilsugæsluna hugsa það í þremur skrefum hvernig þessi hópur verði boðaður í bólusetningu.

„Í fyrsta lagi þá ætlum við að fara út til fólks og til allra eldri borgara sem eru til dæmis í dagþjálfun, dagdvöl eða í svona íbúðakjörnum, í heimahjúkrun eða einhverju slíku. Þannig að við erum í fyrsta lagi að sækja út til þeirra, fara út til þeirra,“ sagði hún í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Í öðru lagi, þegar búið væri að ná til þessara hópa, þá verði send smáskilaboð til allra sem eiga þá eftir að koma í bólusetningu.

„Þá bjóðum við þeim hingað á Suðurlandsbrautina. Svo í þriðja lagi, ef við sjáum að það eru einhverjir eftir, þá ætlum við alveg „hands on“ að reyna að ná til þeirra allra.“

Frétt Stöðvar 2 frá í gærkvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×