Innlent

Vonandi ekki vísbending um að faraldurinn sé á uppleið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/vilhelm

Sóttvarnalæknir vonar að fjöldi nýsmitaðra í gær sé ekki vísbending um að faraldurinn sé á uppleið. Tillögur sóttvarnalæknis um veirutakmarkanir sem taka gildi í næstu viku eru í vinnslu.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag. Ellefu greindust innanlands með veiruna í gær, þar af sjö í sóttkví.

Þórólfur benti á að nýsmitaðir undanfarna daga hefðu verið tiltölulega fáir en verið heldur fleiri í gær. Hann kvaðst vona að þetta væri ekki vísbending um að faraldurinn væri á uppleið en næstu dagar verði að skera úr um það.

Þá greindust tíu með veiruna á landamærum í gær og hefur orðið talsvert aukning í greiningum þar undanfarna daga. Þetta sagði Þórólfur endurspegla vöxt í faraldrinum erlendis.

Þrír með breska afbrigðið innanlands

Þrír hafa nú greinst innanlands með hið svokallaða breska afbrigði kórónuveirunnar. Allir eru þeir tengdir fólki sem greindist með afbrigðið á landamærunum fjölskylduböndum. Alls hafa 22 greinst með afbrigðið hér á landi, nítján á landamærum.

Þórólfur benti á að fleiri vísbendingar væru um að breska afbrigðið sé meira smitandi en önnur afbrigði og vísaði meðal annars í danska rannsókn þess efnis. Hins vegar væru engin merki um að afbrigðið valdi alvarlegri sjúkdómi.

Þá vinnur Þórólfur nú að tillögum um sóttvarnaaðgerðir sem taka munu gildi 13. janúar. Hann sagði þær munu mótast af því hvernig faraldurinn þróast næstu dagana. Ekki væri tímabært að skýra nánar frá efnislegum atriðum tillagnanna. Hann minnti á að takmörkunum hafi verið aflétt í skólahaldi frá áramótum og mikilvægt að kennarar og nemendur gæti vel að sóttvörnum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.