Erlent

Múgurinn braut sér leið inn í þinghúsið

Elín Margrét Böðvarsdóttir, Sylvía Hall, Samúel Karl Ólason, Hólmfríður Gísladóttir, Þórir Guðmundsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Á myndinni má sjá hvernig lögregla mundar byssu í áttina að mótmælendum sem höfðu brotið sér leið inn í þinghúsið. 
Á myndinni má sjá hvernig lögregla mundar byssu í áttina að mótmælendum sem höfðu brotið sér leið inn í þinghúsið.  AP/J. Scott Applewhite

Muriel Bowser, borgarstjóri í Washington D. C. hefur fyrirskipað útgöngubann í borginni eftir að hópur fólks, úr röðum mótmælenda hliðhollum Donald Trump, braut sér leið inn í þinghús Bandaríkjaþings. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hefur kallað til þjóðvarðlið vegna mótmælanna.

Þúsundir mótmælenda, sem margir hverjir bera fána merkta Trump 2020, höfðu safnast saman við þinghúsið og á götum borgarinnar og hefur komið til átaka milli mótmælenda og lögreglu.

Myndir og myndbönd af vettvangi, sem meðal annars hefur verið deilt á samfélagsmiðlum, sýna hvernig múgurinn hafa brotið sér leið í gegnum varnarmúr lögreglumanna í óeirðabúning og að þinghúsinu.

Sameiginlegur fundur fulltrúa- og öldungadeildar Bandaríkjaþings hófst þar klukkan eitt í dag að staðartíma þar sem kjör Joe Biden til embættis forseta Bandaríkjanna fær formlega afgreiðslu. Lögregla hefur meðal annars beitt einhvers konar úðavopni gegn mótmælendum. Margir mótmælendanna bera ekki grímu og veifa sumir Bandaríska fánanum. 

„Þú sórst eið,“ og „stöðvið þjófnaðinn,“ hafa mótmælendur meðal annars heyrst kalla, með vísan til þess að úrslitum forsetakosninganna í nóvember hafi verið „stolið“ líkt og Donald Trump fráfarandi Bandaríkjaforseti og margir af stuðningsmönnum hans telja að hafi verið gert, þrátt fyrir skort á sönnunargögnum þar um.

Nýjustu vendingar, myndir og myndbönd frá Washington má finna í vaktinni hér að neðan.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.