Sampdoria kom í veg fyrir að Inter færi á toppinn

Sindri Sverrisson skrifar
Antonio Candreva bauð upp á óléttufagnið þegar hann kom Sampdoria yfir í dag.
Antonio Candreva bauð upp á óléttufagnið þegar hann kom Sampdoria yfir í dag. Getty/Paolo Rattini

Alexis Sánchez fékk tækifæri til að koma Inter yfir snemma leiks en vítaspyrna hans fór í súginn á 12. mínútu. Þess í stað kom Antonio Candreva heimamönnum yfir úr víti og Keita Baldé bætti við marki á 38. mínútu af stuttu færi eftir undirbúning Mikkel Damsgaard.

Stefan De Vrij minnkaði muninn um miðjan seinni hálfleik en Sampdoria hélt út og er nú með 20 stig í 11. sæti. Inter er með 36 stig, stigi á eftir grönnum sínum í AC Milan sem eiga leikinn við Juventus til góða í kvöld.

Andri Fannar Baldursson var á varamannabekk Bologna sem varð að sætta sig við 2-2 jafntefli við Udinese eftir jöfnunarmark Tolgay Arslan á 90. mínútu. Bologna var 2-1 yfir í hálfleik en missti Mattias Svanberg af velli með rautt spjald snemma í seinni hálfleik. Bologna er með 17 stig í 12. sæti, stigi fyrir ofan Udinese.

Roma vann sinn þriðja leik í röð, 3-1 útisigur gegn Crotone, þar sem Borja Mayoral skoraði tvö mörk. Roma er í 3. sæti með 33 stig, fjórum stigum frá toppnum.

Af öðrum úrslitum má nefna að Atalanta vann Parma 3-0 og komst upp í 6. sæti, með 28 stig. Sassuolo vann Genoa 2-1 og er nú með 29 stig í 4. sæti. Juventus getur komist upp í 4. sæti í kvöld með sigri á Milan, en Juventus er með 27 stig í 7. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira