Erlent

„Forsetinn getur ekki krafist, tekið eða hrifsað til sín vald“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, á kosningafundinum í Georgíu í gær.
Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, á kosningafundinum í Georgíu í gær. Getty/Chip Somodevilla

Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, hélt kosningafund í Georgíu í gær, líkt og Donald Trump, fráfarandi forseti. Tilefni fundanna eru aukakosningar í ríkinu um tvö öldungadeildarþingsæti þar sem Repúblikanar sækjast eftir endurkjöri.

Demókratar leggja mikla áherslu á að vinna sætin frá Repúblikönum enda tryggja þeir sér þannig meirihluta í öldungadeildinni sem getur haft verulega þýðingu fyrir Biden við upphaf forsetatíðar hans.

Í ræðu sinni á fundinum í gær hvatti Biden kjósendur í Georgíu til þess að koma þjóðinni aftur á óvart með því að kjósa tvo Demókrata til öldungadeildarinnar.

Biden hafði betur gegn Trump í ríkinu í forsetakosningunum í nóvember, nokkuð óvænt, en aðeins um 12.000 atkvæði skildu þá að. Er hann fyrsti Demókratinn í þrjátíu ár til þess að fara með sigur af hólmi í ríkinu í forsetakosningum.

„Georgía, öll þjóðin horfir til þín. Aldrei áður á mínum ferli hefur eitt ríki getað markað stefnuna ekki aðeins fyrir næstu fjögur ár heldur fyrir næstu kynslóð,“ sagði Biden í ræðu sinni.

Á meðan Trump hefur reynt að fá Brad Raffensperger, innanríkisráðherra Georgíu, til þess að „finna“ atkvæði fyrir sig svo snúa megi úrslitum forsetakosninganna við kvaðst Biden aldrei myndu krefjast tryggðar frá þingmönnum ríkisins.

Þeir væru kjörnir til þess að þjóna íbúum Georgíu og stjórnarskránni, ekki forsetanum.

„Forsetinn getur ekki krafist, tekið eða hrifsað til sín vald. Aðeins bandaríska þjóðin getur gefið og heimilað vald,“ sagði Biden.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×