Erlent

Hlé gert á leitinni í Ask

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Björgunarmenn sjást hér að störfum í Ask í gær. Að minnsta kosti þriggja er enn saknað.
Björgunarmenn sjást hér að störfum í Ask í gær. Að minnsta kosti þriggja er enn saknað. AP/Jil Yngland

Leitað var í alla nótt í rústum húsanna sem eyðilögðust í skriðuföllunum í norska bænum Ask á dögunum. Sjö hafa fundist látin eftir hamfarirnar og að minnsta kosti þriggja er enn saknað.

Sjöundi einstaklingurinn fannst í gærkvöldi og leitin í nótt bar engan árangur, að því er norska ríkisútvarpið greinir frá.

Nú hefur verið ákveðið að gera hlé á leitinni í nokkra klukkutíma, en það mun vera til þess að hundar sem notaðir eru við leitina eigi meiri möguleika á að finna fólk, þegar leit verður fram haldið.

Enn binda menn vonir við að fólk finnist á lífi í rústunum en skriðan féll þann þrítugasta desember síðastliðinn.

Leitarsvæðið hefur verið stækkað nokkuð frá því sem var og hefur lögregla sagt að enn sé haldið í vonina um að einhver finnist á lífi, þótt hún dvíni með hverjum deginum sem líður.

Björgunaraðilar hafa notið liðsinnis norska hersins við leitina, og þá hafa starfsmenn almannavarna dælt vatni úr tjörn sem hefur byrjað að renna inn á hamfarasvæðið og þannig gert leitina enn erfiðari.

Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning heimsóttu Ask heim í gær og ræddu við fólk sem missti allt sitt í hamförunum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.