Erlent

Til skoðunar að helminga bólu­efna­skammta

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Skjólstæðingur Jackson Memorial-spítalans í Flórída bólusettur við Covid-19.
Skjólstæðingur Jackson Memorial-spítalans í Flórída bólusettur við Covid-19. Marco Bello/Anadolu Agency via Getty

Bandarísk stjórnvöld eru nú með það til skoðunar að gefa hópi fólks hálfan skammt bóluefnis Moderna við Covid-19, með það að markmiði að hraða bólusetningarferlinu vestanhafs.

Reuters greinir frá þessu og hefur eftir Moncef Slaoui, sem farið hefur fyrir bóluefnastarfi stjórnvalda í Bandaríkjunum, að viðræður milli stjórnvalda, Matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnunar Bandaríkjanna og Moderna um þetta væru hafnar. Samkvæmt Moderna þarf að gefa fólki tvo skammta af bóluefninu til að tryggja virkni, líkt og með bóluefni Pfizer.

„Við vitum það um Moderna-bóluefnið, það að gefa hálfan skammt fólki á aldrinum 18 til 55, myndi ná upp ónæmi hjá tvöfalt fleira fólki miðað við skammtana sem við höfum undir höndum,“ hefur Reuters eftir Slaoui. Hann segir þá hálfur skammtur af bóluefninu veki sömu ónæmisviðbrögð og fullur hjá þessum hópi.

Hvorki Moderna né Matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnun Bandaríkjanna hafa tjáð sig við Reuters um málið.

Samkvæmt Ofnæmis- og sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC, hafa rúmlega 4,2 milljónir Bandaríkjamanna fengið fyrsta skammt bóluefnis við Covid-19. Alls hefur rúmlega 13 milljónum skammta verið dreift um Bandaríkin. Ásamt bóluefni Moderna hefur bóluefni Pfizer við Covid-19 fengið markaðsleyfi í Bandaríkjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×