Erlent

Bólusetti kærastann og fékk bónorð í leiðinni

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Bólusetningin tók óvæntan snúning með bónorði.
Bólusetningin tók óvæntan snúning með bónorði. Getty

Robby Vargas-Cortes, sem starfar sem yfirmaður sjúkraflutninga, kom kærasta sínum, hjúkrunarfræðinginum Eric Vanderlee, heldur betur á óvart þegar hann mætti til hans til að fá bóluefni gegn covid-19. Vargas-Cortes mætti í bólusetningu á Þorláksmessu til Vanderlee, sem starfar sem hjúkrunarfræðingur í Canton í Suður-Dakóta í Bandaríkjunum.

Vargas-Cortes hafði falið trúlofunarhring upp í vinstri ermi klæða sinna og dró hringinn fram þegar hans heittelskaði gerði sig reiðubúinn til að bólusetja hann. „Já“ svaraði Vanderlee áður en hann gaf unnusta sínum bóluefnið gegn covid-19.

Bónorðið náðist á myndband og af því að dæma má ætla að samstarfsmenn Vanderlee hafi verið alveg jafn hissa og hann sjálfur við að heyra bónorðið. „Þetta hefur verið frekar klikkað ár, og þú veist, það hefur verið skemmtilegt að hafa þig í lífi mínu,“ sagði Vargas-Cortes, er hann bar upp bónorðið.

Síðan föðmuðust þeir innilega en enginn koss náðist þó á myndband enda voru þeir báðir með andlitsgrímu. Vanderlee segist engan veginn hafa átt von á bónorðinu að því er segir í frétt New York Times. Þeir hafa verið saman í næstum fimm ár og segjast þeir oft hafa grínast með það að trúlofa sig, en í ljósi kórónuveirufaraldursins hafi reynst erfitt að skipuleggja óvænt bónorð. En þegar Vanderlee bauðst til að aðstoða við bólusetninguna sá Vargas-Cortes sér leik á borði.

Árið 2020 reyndist þeim erfitt líkt og svo mörgum öðrum en afi Vanderlee er einn af þeim um það bil 347 þúsund sem hafa látist af völdum covid-19 í Bandaríkjunum. „Hann var allra manna hraustastur,“ segir Vanderlee. „Hann átti ekki við nein vandamál að stríða og svo allt í einu var hann farinn.“

Þeir segjast hrærðir yfir viðbrögðunum sem þeir hafi fengið vegna trúlofunnar sinnar og þeir hafi fundið fyrir mikilli ást og stuðningi, en myndbandið af trúlofun þeirra hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum. „Þetta færir okkur nýja bylgju af gleði,“ sagði Vanderlee.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×