Þetta er í fyrsta skipti á embættistíð forsetans sem þingið hefur farið gegn neitunarvaldi forsetans. 81 þingmaður samþykkti tillöguna um að þvinga frumvarpið í gegn en 13 greiddu atkvæði gegn því.
Öldungadeild Bandaríkjaþings kom saman í dag til þess að ræða frumvarpið en þingmenn fulltrúadeildarinnar höfðu þegar samþykkt að þvinga frumvarpinu í gegn. Repúblikanaflokkurinn, flokkur Trumps, er með meirihluta í öldungadeildinni og þykir ákvörðun deildarinnar því nokkuð sér á báti. Þá bendir breska ríkisútvarpið á það að nú séu aðeins tveir dagar þar til nýkjörnir fulltrúar í öldungadeild taka við keflinu.
Trump sagðist hafa neitað að skrifa undir lögin þar sem hann sé mótfallinn því að í þeim felist takmarkanir á því hversu marga hermenn verði hægt að draga til baka frá Evrópu og Afganistan. Þá er hann einnig ósáttur við að í lögunum er veitt heimild til þess að fjarlægja nöfn leiðtoga Suðurríkjanna sálugu af herstöðvum.
Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna beggja deilda þingsins hafði þegar samþykkt varnarmálafjárlögin áður en þau voru send á borð forsetans til staðfestingar. Þingdeildirnar geta báðar hafnað neitunarvaldi forsetans ef tveir af hverjum þremur þingmönnum beggja deilda samþykkja það.
Frumvarpið verður því að lögum, þrátt fyrir mótmæli forsetans.
Donald Trump lýsti yfir miklum vonbrigðum í kjölfar þess að samflokksmenn hans í fulltrúadeildinni samþykktu þann 29. desember að þvinga frumvarpið í gegn. Hann skrifaði ýmislegt á Twitter um málið, og sagði hann meðal annars forystu flokksins veika og þreytta.
„Forysta repúblikana vill bara fara auðveldustu leiðina. Leiðtogar okkar (ekki ég, að sjálfsögðu) eru aumkunarverðir. Þeir kunna bara að tapa! P.S. Ég fékk MARGA öldungadeildarþingmenn og þingmenn/þingkonur kjörna. Ég held þeir hafi gleymt því!“ skrifaði forsetinn.