Innlent

Tómatar í stað erlendra ferðamanna

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Framkvæmdir eru hafnar við Friðheima í Reykholti en þar er verið að stækka gróðurhúsið um fimm þúsund fermetra. Eigendur fyrirtækisins ætla að leggja aukna áherslu á tómatarækt til að bregðast við fækkun erlendra ferðamanna.

Í nærri aldarfjórðung hafa verið ræktaðir tómatar í Friðheimum. Þá hefur líka verið tekið þar á móti hópum erlendra ferðamanna. Þeim hefur verið sýnt hvernig ræktunin fer fram og fengið að smakka og horfa á hestasýningar. Um tvö hundruð þúsund ferðamenn koma í Friðheima á ári hverju. Fækkun erlendra ferðamanna á Íslandi hefur því haft veruleg áhrif á rekstur fyrirtækisins.

Krísufundir alla daga

„Þetta er náttúrulega búið að vera mjög snúið ástand og krísufundir í sjálfu sér alla daga. Við erum búin að plana okkur svona viku fyrir viku,“ segir Knútur Ármann eigandi Friðheima.

Knútur segir engum starfsmanni hafa verið sagt upp en verið sé að nýta hlutastarfaleið stjórnvalda fyrir marga. Hann segir að til að geta haldið sem flestum í vinnu og haft næg verkefni hafi verið ákveðið byggja annað gróðurhús og framleiða fleiri tómata.

„Við keyptum landið hérna við hliðin á okkur til þess að geta farið í það og erum að bara rétt að hefja framkvæmdir núna og vonandi tínum við fyrstu tómatana fyrir áramót, það er svona planið, úr því húsi.“

Skortur á íslenskum tómötum hefur verið viðvarandi

Í Friðheimum er nú fimm þúsund fermetra gróðurhús en nýja húsið sem byrjað er að byggja þar við verður einnig fimm þúsund fermetrar.

„Við erum að auka framleiðsluna alveg um meira en helming eða það er að segja 100%. Þannig að við ætlum að taka svolítið stórt skerf. Það eru mikil tækifæri í íslenskri garðyrkju og við höfum svona búið við það svona síðustu árin að það hefur verið svona viðvarandi tómastaskortur á íslenskum tómötum. Þannig það er frábært að geta komið sterkur inn á markaðinn þar,“ segir Knútur.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.