Fótbolti

Henderson fær ekki að láta ljós sitt skína á Old Trafford á næstu leiktíð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dean Henderson hefur farið mikinn í liði Sheffield United á leiktíðinni. 
Dean Henderson hefur farið mikinn í liði Sheffield United á leiktíðinni.  EPA-EFE/PETER POWELL

Enski markvörðurinn Dean Henderson hefur staðið sig með prýði það sem af er leiktíð í ensku úrvalsdeildinni. Hvort leiktíðin verði kláruð eður ei er ljóst að Henderson getur verið sáttur með framgöngu sína. Hann hefur verið frábær í spútnik liði tímabilsins, Sheffield United.

Þegar deildin var sett á ís vegna kórónufaraldursins voru nýliðar Sheffield í 7. sæti eftir 28 umferðir með 43 stig. Þá hefur Henderson haldið oftast hreinu í deildinni ásamt Alisson [Liverpool] og Kasper Schmeichel [Leicester City] eða tíu sinnum.

Henderson er á sínu fyrsta tímabili í úrvalsdeildinni en hann kom til Stálborgarinnar á láni frá stórliði Manchester United. Þar var hann á eftir David De Gea og Sergio Romero í goggunarröðinni. 

Hann stefndi á að berjast við David De Gea um stöðu aðalmarkvarðar á næstu leiktíð en nú hefur Ole Gunnar Solskjær, þjálfari liðsins, gefið það til kynna að Henderson verði lánaður frá Old Trafford enn á ný þegar næsta leiktíð hefst.

Henderson munþó  fá nýjan, og betrum bættan, samning í sumar en hann þarf samt að bíða eftir tækifærinu til að slá De Gea út sem aðalmarkvörð Man Utd. Hvort Englendingurinn fari aftur til Sheffield á eftir að koma í ljós en talið er að þó nokkur lið innan, sem og utan, Englands hafi áhuga á markverðinum unga.

Enski fréttamiðillinn Daily Star greindi frá þessu. Þar kemur einnig fram að Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, hafi íhugað að skipta Jordan Pickford, aðalmarkverði Everton og landsliðsins, út fyrir Henderson.

Evrópumótið í knattspyrnu fer fram næsta sumar og gæti hinn 23 ára gamli Henderson, með góðri frammistöðu á næstu leiktíð, verið orðinn aðalmarkvörður Englands þegar þar að kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×