Erlent

Ríkisstjóri Georgíu segist nýbúinn að fá vel þekktar upplýsingar um faraldurinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Brian Kemp, ríkisstjóri Georgíu.
Brian Kemp, ríkisstjóri Georgíu. Vísir/Getty

Brian Kemp, ríkisstjóri Georgíu í Bandaríkjunum, sagði í gær að hann hefði komist að því á þriðjudaginn að fólk sem sýnir ekki einkenni gæti smitað aðra af Covid-19. Þær upplýsingar hafa legið fyrir frá því í janúar en Kemp segir æðsta lækni ríkisins hafa frætt sig um þetta og gerbreytir það stöðunni, að sögn ríkisstjórans.

Kemp, sem varð ríkisstjóri í umdeildum kosningum árið 2018, hefur barist gegn því að setja á samkomubann í ríkinu en skipti um skoðun í gær. Á blaðamannafundi sagði hann áðurnefndar upplýsingar hafa fengið sig til að skipta um skoðun.

Anthony S. Fauci er sérfræðingur í sóttvörnum og forstöðumaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna. Hann hefur verið einn helsti ráðgjafi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Gegnt svipuðu hlutverki og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hér á landi. Fauci sagði á blaðamannafundi í lok janúar að gögn frá Þýskalandi bentu til þess að fólk sem sýndi ekki einkenni gæti smitað aðra.

Þann 4. febrúar sagði hann það svo staðfest frá Kína og þann 1. mars tilkynntu Sóttvarnir Bandaríkjanna að fólk án einkenna gæti dreift veirunni. Yfirmaður CDC sagði á mánudaginn að mögulega væri fjórðungur allra þeirra sem smitaðist án einkenna.

Sóttvarnateymi Hvíta hússins ítrekaði svo þann 14. mars að dreifing veirunnar í gegnum fólk sem virðist heilbrigt sé sífellt stærra vandamál. 

Búið er að gera mikið grín að Kemp fyrir yfirlýsinguna í gær en einnig gagnrýna hann harðlega.  Sömuleiðis hefur yfirlýsingin vakið spurningar um á hverju Kemp hafi hingað til byggt ákvarðanir sínar, sem hafa áhrif á alla íbúa Georgíu.

Samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum hafa 4,748 smit greinst í Georgíu og eru 154 dánir.

Á Covid.is kemur fram að fólk virðist ekki vera smitandi á meðgöngutíma sýkingar áður en einkenni koma fram. Sumir fái hins vegar lítil sem engin einkenni og geta þó verið smitandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×