Erlent

Auka öryggisgæslu Fauci vegna hótana

Samúel Karl Ólason skrifar
Anthony Fauci, forstöðumaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna.
Anthony Fauci, forstöðumaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Búið er að auka öryggisgæslu Anthony S. Fauci, sérfræðings í sóttvörnum og forstöðumans Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, sem hefur verið einn helsti ráðgjafi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Honum hefur borist hótanir vegna samsæriskenninga um að hann reyni að grafa undan forsetanum og ríkisstjórn hans.

Fauci hefur verið ötull talsmaður þess að auka inngrip í líf Bandaríkjamanna og setja á samkomu- og útgöngubann. Hann er sömuleiðis einn fárra embættismanna sem hafa þorað opinberlega að leiðrétta rangfærslur Donald Trump, forseta.

Vegna þessa hefur Fauci orðið skotmark áhrifamikilla aðila á fjarhægri væng bandarísks samfélags sem hafa hvatt til þess að boð og bönn verði felld niður og lífi hleypt í efnahag Bandaríkjanna.

Grein um að Fauci sé meðlimur í hinu ímyndaða djúpríki, sem vinnur gegn forsetanum, hefur einnig verið í mikilli dreifingu meðal stuðningsmanna Trump.

Fauci var spurður að því á blaðamannafundi í gær hvort hann væri með öryggisgæslu og sagðist hann ekki vilja tjá sig um það. Trump greip þó inn í og sagði Fauci ekki þurfa á því að halda, því „allir elska hann“.

Rætt var við Fauci í þættinum This Morning á CBS í morgun. Þar var hann spurður út í þessar fregnir auk þess sem farið var yfir stöðuna í Bandaríkjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×