Erlent

Leyni­þjónusta Banda­ríkjanna segir veiruna ekki vera mann­gerða

Andri Eysteinsson skrifar
Frá kínverskri rannsóknarstofu.
Frá kínverskri rannsóknarstofu. Getty/Yin Liqin

Rannsókn bandarísku leyniþjónustunnar á uppruna kórónuveirunnar sem valdið getur Covid-19 sjúkdómnum leiddi í ljós að orðrómar um að veiran hafi verið búin til á tilraunastofu séu ekki á rökum reistar.

„Við munum halda áfram að rannsaka og greina nýjar upplýsingar um veiruna til þess að komast að því hvort veiran hafi breiðst út frá matarmarkaði eða vegna slyss á rannsóknarstofu í Wuhan,“ er haft eftir yfirmönnum leyniþjónustunnar í frétt BBC um málið.

Veirunnar var fyrst getið í kínversku borginni Wuhan en þaðan hefur hún dreifst út um víða veröld og hafa nú yfir 3,2 milljónir tilfella verið skráð og yfir 230 þúsund manns hafa látist vegna veirunnar.

Samsæriskenningar hafa sprottið upp um tilurð veirunnar og hafa ýmsir gefið til kynna að þeir telji veiruna manngerða og jafnvel ætlaða sem lífefnavopn. Yfirlýsing leyniþjónustunnar er í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn fjalla um slíkar kenningar.

Þá eru einnig uppi kenningar um að veiran hafi breiðst út eftir slys á rannsóknarstofu, fram kemur í frétt BBC að sú kenning hafi ekki verið afsönnuð.

Bandaríkjaforseti, Donald Trump, sagði á blaðamannafundi í dag að líkur séu á því að uppspretta veirunnar hafi verið veirufræðideild í Wuhan. Trump var spurður hvort hann hefði séð eitthvað sem bendi til þess að kenningin gæti verið sönn.

„Já ég hef séð slíkt. Ég held líka að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ætti að skammast sín því hún lætur eins og almannatengsla fyrirtæki Kínverja,“ sagði forsetinn.

Þá hefur New York Times greint frá því að hátt settir embættismenn innan Hvíta hússins hafi óskað eftir því að leyniþjónustan rannsaki kenningar þær sem snúa að rannsóknarstofu í Wuhan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.