Fótbolti

Slæmt tap hjá Ólafi fyrir vetrarfríið

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Hallgrímur og félagar fengu skell í lokaleiknum fyrir vetrarfríið
Hallgrímur og félagar fengu skell í lokaleiknum fyrir vetrarfríið Vísir/getty
Fyrrum leikmaður Liverpool, Daniel Agger, kom Bröndby á bragðið í 2-0 sigri á lærisveinum Ólafs Kristjánssonar í Nordsjaelland.

Ronnie Schwartz bætti við öðru marki Bröndby stuttu síðar og tryggði Bröndby stigin þrjú. Guðmundur Þórarinsson byrjaði leikinn á miðjunni hjá Nordsjaelland en var tekinn af velli tíu mínútum fyrir leikslok.

Þetta var þriðja tap Nordsjaelland í röð og er Ólafur eflaust sáttur að komið sé að vetrarfríi til þess að fá tíma til að vinna í ýmsum málum. Nordsjaelland situr í 8. sæti að 18. umferðum loknum, sjö stigum fyrir ofan fallsæti.

Ari Freyr Skúlason, Hallgrímur Jónasson og félagar í OB fengu skell gegn toppliði FC Kaupmannahöfn á Parken í dag 1-4 en OB tókst að minnka muninn á lokamínútu leiksins.

Ari og Hallgrímur byrjuðu leikinn í vörn OB en gátu ekki komið í veg fyrir mörk heimamanna. Skoraði miðvörðurinn Mathias Jørgensen tvö mörk og Nicolai Jorgensen eitt áður en Lasse Nielsen, miðvörður OB, gerði út um leikinn með sjálfsmrki.

FC Kaupmannahöfn er með fjögurra stiga forskot á Álaborg í dönsku deildinni að leik loknum en OB er í 7. sæti með 18 stig.

Baldur Sigurðsson var ekki í leikmannahóp SönderjyskE í dag en hann er á förum frá félaginu.

Úrslit dagsins:

Esbjerg 0-1 Sönderjyske

Nordsjaelland 0-2 Bröndby

FC Kaupmannahöfn 4-1 OB




Fleiri fréttir

Sjá meira


×