Fótbolti

Danir enn í vafa varðandi EM-leikina

Sindri Sverrisson skrifar
Danir voru sigurreifir eftir að hafa tryggt sér sæti á EM og þá stóð til að þeir yrðu á heimavelli í keppninni. Nú er það ekki eins víst.
Danir voru sigurreifir eftir að hafa tryggt sér sæti á EM og þá stóð til að þeir yrðu á heimavelli í keppninni. Nú er það ekki eins víst. VÍSIR/GETTY

Danska knattspyrnusambandið hefur fengið átta daga frest til að svara UEFA varðandi það hvort að Kaupmannahöfn verði áfram einn af leikstöðum Evrópumóts karla í fótbolta eftir að mótinu var frestað um eitt ár.

Til stóð að Danir yrðu á heimavelli í sínum þremur leikjum í riðlakeppni EM og að auk þess færi einn leikur í útsláttarkeppninni fram á Parken. Hins vegar er það svo að áður hafði verið ákveðið að Tour de France hjólreiðakeppnin myndi hefjast í Kaupmannahöfn á næsta ári, og að þaðan yrði hjólað í gegnum Danmörku í fyrsta sinn í sögu keppninnar.

Undanfarnar vikur hefur knattspyrnusamband Danmörku fundað með borgaryfirvöldum í Kaupmannahöfn ásamt UEFA og ASO, skipuleggjanda Tour de France, til að finna lausn á málinu svo að bæði EM og Tour de France geti farið fram í Kaupmannahöfn sumarið 2021. UEFA hafði farið fram á svar í dag en hefur nú veitt frest til 8. maí.

„Það gleður mig að allir aðilar vinna að því að finna lausn þannig að við fáum íþróttasumar í Kaupmannahöfn með bæði EM og Tour de France. Kaupmannahöfn vill ekkert frekar en að vera gestgjafi fyrir bæði mótin næsta sumar,“ sagði Frank Jensen, borgarstjóri í Kaupmannahöfn.

Jesper Möller, formaður danska knattspyrnusambandsins, hefur lýst yfir áhyggjum af því hvort að EM-leikir verði á Parken, eftir að mótinu var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. „Það er sögulegt tækifæri fyrir okkur að halda EM-leiki í Kaupmannahöfn og við í knattspyrnusambandinu gerum allt til að það gangi eftir,“ er haft eftir Möller á TV 2.


Tengdar fréttir

Tour de France gæti komið í veg fyrir EM í Kaupmannahöfn

Það gæti farið svo að EM í fótbolta verði ekki spilað í Kaupmannahöfn þegar það fer fram næsta sumar. Hjólreiðakeppnin Tour de France gæti komið í veg fyrir að fótboltinn verður spilaður á Parken sumarið 2021.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.