Innlent

Metaðsókn að sundstöðum í sumar

Metaðsókn var að sundlaugum í sumar og þakka menn það hitabylgjunni sem gekk yfir fyrri hluta ágústmánaðar. "Það ber að taka þessum tölum með fyrirvara þar sem fjórar sundlaugar voru lokaðar hluta ágústmánaðar," segir Erlingur Þ. Jóhannesson, íþróttafulltrúi hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur sem rekur sundlaugar borgarinnar. Talsverðar framkvæmdir fóru fram við fjórar sundlaugar í ágúst, Vesturbæjarlaug, Sundhöllina, Breiðholtslaug og Árbæjarlaug og segir Erlingur að tímasetningin hafi verið afar óheppileg með tilliti til hitabylgjunnar sem gekk yfir fyrrihluta mánaðarins. "Það var þó lítið við því að gera þar sem slíkt er ákveðið með marga mánaða fyrirvara en þetta hafði talsverð áhrif á þann fjölda sem kom í sund í þeim mánuði. Þrátt fyrir það er heildarfjöldi sundlaugargesta á árinu rúmlega 1,3 milljónir og aðeins 40 þúsund færri í ár en á síðasta ári þrátt fyrir lokanir í ágúst. Gísli Kristinn Lórenzson, forstöðumaður sundlaugarinnar á Akureyri, segir aðsóknina hafa verið framar öllum vonum á árinu. "Miðað við árið í fyrra sem var í daprari kantinum hefur gestum fjölgað um 43 þúsund það sem af er árinu. Alls hafa 270 þúsund komið hingað og ég er að gæla við að ná 300 þúsundasta gestinum inn fyrir áramót. Það er því um mikla aukningu að ræða og það skýrist fyrst og fremst af frábæru sumri."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×