Enski boltinn

Dramatískur sigur Cardiff | Jóhann Berg og félagar fóru illa að ráði sínu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron fagnar Kenwyne Jones eftir að hann skoraði sigurmark Cardiff.
Aron fagnar Kenwyne Jones eftir að hann skoraði sigurmark Cardiff. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn fyrir Cardiff City sem vann 3-2 sigur á Brentford í ensku B-deildinni í fótbolta í kvöld.

Eftir að hafa verið úti í kuldanum í byrjun tímabils hefur landsliðsfyrirliðinn unnið sér sæti í byrjunarliði Cardiff og hann hefur átt sinn þátt í fínu gengi liðsins upp á síðkastið. Cardiff hefur fengið átta stig úr síðustu fjórum leikjum sínum og situr í 7. sæti með 33 stig, einu stigi frá Ipswich Town sem er í því sjötta.

Cardiff var 2-0 yfir í hálfleik en Brentford-menn sóttu í sig veðrið í seinni hálfleik og náðu að jafna metin fjórum mínútum fyrir leikslok. En það var svo Kenwyne Jones sem tryggði Cardiff stigin þrjú þegar hann skoraði annað mark sitt og þriðja mark liðsins í uppbótartíma.

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Charlton sem missti niður tveggja marka forystu gegn botnliði Bolton Wanderers á heimavelli.

Jóhann og félagar byrjuðu leikinn frábærlega og Ademola Lookman kom Charlton yfir strax á upphafsmínútu leiksins. Lookmann var svo aftur á ferðinni á 26. mínútu og útlitið orðið gott fyrir heimamenn.

En Bolton-menn voru ekki af baki dottnir og gamla brýnið Emile Heskey minnkaði á 32. mínútu. Tíu mínútum síðar jafnaði Josh Vela metin og þar við sat. Lokatölur 2-2.

Jóhann Berg fór af velli á 70. mínútu. Charlton er enn í fallsæti en liðið er einu stigi frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×