„Í ljósi viðtals við Jón Gunnarsson á Bylgjunni í morgun þá hef ég ákveðið að opna þetta innlegg mitt,“ segir Haraldur Eiríksson um pistil sem hann ritaði og fer nú sem eldur um sinu á Facebook. Þegar þetta er ritað hafa á annað hundrað deilt pistlinum en hann er einnig að finna á Vísi undir fyrirsögninni: Nýju gjafakvótagreifarnir. Haraldur er stjórnarmaður í Íslenska náttúruverndarsjóðnum og Atlantic Salmon Trust en hann er búsettur á Bretlandseyjum.
Haraldur spyr hvort Ísland sé Namibía norðursins?
En, í því dæmi sem hann tiltekur eru Íslendingar í hlutverki Namibíumanna og Norðmenn eru þeir sem hagnast á auðlindinni. Haraldur birtir mynd af yngsta milljarðamæringi heims.

„Á meðfylgjandi mynd má sjá hinn 25 ára Gustav Magnar Witzøe, einn yngsta milljarðamæring heims. Auðæfi hans eru metin á um 400 milljarða ISK og eru þau tilkomin vegna eldis á laxi í sjókvíum, en faðir hans hefur fært honum umrædd auðæfi í formi hlutabréfa,“ skrifar Haraldur.
Hann spyr hvað Íslendingum komi þetta við og svarar þá spurningunni sjálfur:
„Jú, þeir feðgar ásamt öðrum, eru meirihlutaeigendur Arnarlax á Vestfjörðum. Gustav og fyrirtæki hans er einn þeirra aðila sem Íslendingar hafa gefið framleiðslukvóta í sjókvíaeldi í lögsögu sinni án útboðs.
Arnarlaxi hafa verið færðir framleiðslukvótar á laxi að andvirði 35-40 milljarða við strendur Íslands,
ef miðað er við gangverð slíkra kvóta í Noregi í dag. Þeim sem telja ekki hægt að bera saman gangverð laxaframleiðslukvóta á Íslandi og Noregi skal bent á þá staðreynd að það er styttra frá Osló til Íslands, en frá Osló til sjókvía í Norður-Noregi.“
Viðtalið sem Haraldur Eiríksson vísar til má heyra hér ofar en auk Jóns er Jón Helgi Björnsson formaður Landsambands veiðifélaga í hljóðstofu. Þeir ræddu meðal annars nýtt frumvarp sjávarútvegsráðherra.