Erlent

Tom Hagen neitar sök

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tom Hagen og Anne-Elisabeth Hagen.
Tom Hagen og Anne-Elisabeth Hagen. Vísir/AP

Norski milljarðamæringurinn Tom Hagen, sem handtekinn var í morgun grunaður um morðið á eiginkonu sinni Anne-Elisabeth Hagen, neitar sök. Þetta segir Svein Holden, lögmaður hans, í samtali við NRK í dag.

„Hann heldur því staðfastlega fram að hann hafi ekkert með þetta að gera,“ segir Holden. Hagen muni þó svara spurningum lögreglu, sem líklega muni yfirheyra hann síðar í dag.

„Honum finnst mjög erfitt að vera sakaður um eitthvað sem hann er viss um að hann gerði ekki,“ hefur NRK eftir lögmanninum.

Hagen var handtekinn skammt frá heimili sínu í Lørenskógi í grennd við Ósló er hann var á leið til vinnu í morgun, grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína eða átt hlutdeild í morði hennar.

Fram kom á blaðamannafundi lögreglu vegna málsins í morgun að eftir því sem leið á rannsóknina hefði lögregla sannfærst um að Hagen hefði átt hlut að máli. Lögregla teldi nú að Anne-Elisabeth hefði aldrei verið rænt og að engir mannræningjar hefðu komið við sögu. Málið einkenndist jafnframt af einbeittum brotavilja og misferli. Þá hefur ekki verið útilokað að fleiri verði handteknir í tengslum við málið.

Fá sakamál í Noregi hafa vakið jafnmikla athygli síðustu ár og hvarf Anne-Elisabeth. Ekkert hefur spurst til hennar síðan 31. október 2018 er hún hvarf af heimili sínu og eiginmannsins, sem er einn ríkasti maður Noregs, í Lørenskógi.


Tengdar fréttir

Eiginmaður Anne-Elisabeth handtekinn

Tom Hagen, eiginmaður Anne Elisabeth Hagen sem hvarf af heimili sínu í október 2018, var handtekinn við heimili sitt í Lorenskógi á leið til vinnu í morgun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.